Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vill að Svíar framselji hryðjuverkamenn

18.05.2022 - 23:31
In this photo made available by the Turkish Presidency, Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaks to the media after Friday prayers, in Istanbul, Turkey, Friday, May 13, 2022. Erdogan said Friday that his country is "not favorable" toward Finland and Sweden joining NATO, indicating that Turkey could use its status as a member of the Western military alliance to veto moves to admit the two countries. (Turkish Presidency via AP)
Erdogan forseti, ræðir við fréttamenn í Istanbúl. Mynd: AP - Forsetaembætti Tyrklands
Forseti Tyrklands sagði Svía ekki geta búist við því að Tyrkir samþykki umsókn Svíþjóðar um aðild að NATO nema þeir framselji hryðjuverkamenn. Tyrkland er eina aðildarríkið sem hefur lagst gegn umsóknum Svía og Finna.

Samþykki allra aðildarríkja þarf til þess að ný ríki fái inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Ekkert ríki utan Tyrklands hefur tekið illa í umsóknir Svía og Finna en leiðtogar hinna ríkjanna tuttugu og níu kveðast vissir um að hægt sé að sannfæra Recep Tayyip Erdogan forseta og stjórn hans.

Svíþjóð og Finnland skiluðu inn umsóknunum í dag en innrás Rússa í Úkraínu leiddi til stóraukins stuðnings við aðild í löndunum tveimur. 

Erdogan ítrekaði afstöðu sína í dag og sagði Svía og Finna skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn sem tengjast annars vegar Verkamannaflokki Kúrda og útlæga klerknum Fethullah Gulen, sem Tyrklandsstjórn sakar um að standa að valdaránstilraun ársins 2016. Þá hefur forsetinn sagt algjöran óþarfa að senda finnskar og sænskar sendinefndir til landsins til þess að ræða málið.

Utanríkisráðherrar Tyrklands og Bandaríkjanna funduðu í New York í dag. Mevlut Cavusoglu, tyrkneski utanríkisráðherrann, sagði þar bandarískum starfsbróður sínum að ræða þurfi áhyggjur Tyrkja á alvarlegum nótum. Bandaríkjastjórn sagði fundinn hafa gengið vel og sagðist enn á ný viss um að hægt verði að greiða úr flækjunni.

Þórgnýr Einar Albertsson