
Um það bil 1,7 milljón Norður-Kóreumanna með COVID-19
Greint var frá fyrstu tilfellunum í síðustu viku og síðan þá hefur fjöldi smitaðra margfaldast. Kim var harðorður í garð háttsettra embættismanna á fundi forsætisnefndar ríkisins í gær.
Hann sagði þá hafa brugðist seint og illa við hitasóttinni svokölluðu auk þess sem þeir hafi ekki þekkingu til að takast á við hana. Kim hét því að allir flokksmenn myndu nú bregðast snaggaralega við og líkti afli þeirra við virkt eldfjall.
Leiðtoginn stýrir sjálfur viðbrögðum en ríkismiðlar greina frá því að næstum þrjú þúsund herlæknar aðstoði við dreifingu lyfja og lyfjagjöf. Í gær greindust 233 þúsund ný tilfelli og 62 létust af völdum sjúkdómsins.
Sérfræðingar telja bágborið heilbrigðiskerfi landsins lítt ráða við sýnatökur, greiningar og meðferð af þeirri stærðargráðu sem við blasi.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar óttast að alvarlegur faraldur blasi við Norður-Kóreumönnum enda enginn bólusettur og margir með undirliggjandi sjúkdóma.