
Segir Evrópu fremja efnahagslegt sjálfsvíg
Pútín segir að áætlanir Evrópuríkja um að draga úr orkukaupum af Rússum séu vanhugsaðar og illa skipulagðar. Til lengri tíma verði sú ákvörðun til þess eins að hækka orkuverð í álfunni og auka á verðbólgu.
„Auðvitað ráða ríkin sjálf hvort þau fremji slíkt efnahagslegt sjálfsvíg,“ segir Pútín. Hann staðhæfir að ríkistekjur Rússlands hafi hækkað enda einbeiti ríkið sér að sölu olíu og jarðgass til ríkja vinveittari þeim en Evrópa er um þessar mundir.
Nefnd rannsakar ásakanir um stríðsglæpi Rússa
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna greindi í dag frá stofnun sérstakrar nefndar sem ætlað er að rannsaka, skrásetja og gera heyrinkunnuga meinta stríðsglæpi Rússa í Úkraínu. Auk ráðuneytisins koma nokkrar háskólastofnanir að verkinu.
Meðal þeirra gagna sem nefndinni er ætlað að safna og skoða eru frásagnir, myndir og myndskeið á samfélagsmiðlum ásamt gervihnattamyndum. Stjórnvöld í Kyiv segjast hafa sönnunargögn sem tengi rússneska innrásarherinn við þúsundir atvika sem flokka megi sem stríðsglæpi.
Alræmdust eru morðin sem framin voru í borginni Bucha skammt frá Kyiv. Nefndin mun setja á laggirnar sérstaka vefsíðu þar sem stendur til að varpa ljósi á atburði. Eins er ætlunin að hrekja rangar upplýsingar úr herbúðum Rússa.