
Raunverð íbúða ekki verið hærra frá aldamótum
Hagfræðideild Landsbankans fjallar um fasteignamarkaðinn í dag. Þessi stöðuga fasteignaverðshækkun veldur því að vísitala neysluverðs hækkar og því hafa hagfræðingar Landsbankans hækkað verðbólguspá, en búist er við 7,7% verðbólgu í maí. Spár gerðu ráð fyrir áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs en ekki var búist við því að hækkunin yrði áfram svo mikil. „Markaðurinn var farinn að sýna merki kólnunar seinni hluta árs í fyrra, en sú staða hefur breyst. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 22,3% samanborið við 22,2% í mars,“ segir í Hagsjánni.
Eftir stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hefur verið búist við því að það dragi úr hækkunum en það hefur ekki enn orðið raunin. Þó íbúðaverð hafi hækkað mikið er verðið þó ekki enn orðið jafn hátt, í samanburði við laun, eins og á árunum 2005 til 2008. Það muni þó frekar litlu. „Við sjáum því merki þess að íbúðaverðshækkanir séu komnar nokkuð úr samhengi við undirliggjandi stærðir sem bendir til þess að nú megi fara að vænta hófstilltari verðþróunar á íbúðamarkaði í takt við hærri vexti.“