Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Minjasafnið á Akureyri hlaut Íslensku safnaverðlaunin

18.05.2022 - 18:22
Mynd með færslu
Starfsfólk og stjórnarformaður Minjasafnsins við afhendingu verðlaunanna Mynd: Sigfús Karlsson
Minjasafnið á Akureyri hlaut í dag Íslensku safnaverðlaunin 2022, sem afhent voru nú síðdegis. Fimm söfn voru tilnefnd til verðlaunanna í ár.

Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Í dag er Alþjóðlegi safnadagurinn og Íslensku safnaverðlaunin eru nú veitt í þrettánda sinn.

Auk Minjasafnsins á Akureyri voru Byggðasafnið í Görðum, Gerðarsafn, Hönnunarsafn Íslands og Síldarminjasafn Íslands, tilnefnd til verðlaunanna í ár.

Í umsögn valnefndar segir meðal annars: „Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV