
Meirihlutaviðræður hafnar í nýjum sveitarfélögum
Húnabyggð
Meirihlutaviðræður eru hafnar í nýju sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps. Samkvæmt ráðgefandi kosningu íbúa fær það nafnið Húnabyggð.
Fulltrúar B- og D-lista í sveitarfélaginu hafa þegar átt tvo fundi sín á milli. Samkvæmt heimildum fréttastofu er góður gangur í viðræðunum og samhljómur um mikilvæg mál. Samtals eru framboðin með sjö fulltrúa af þeim níu sem sitja í sveitarstjórn.
Skagafjörður
Skagfirðingar kusu líka í nýju sveitarfélagi, sem varð til við sameiningu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrarhrepps. Þar eru það líka B- og D- listi sem eiga í viðræðum. Oddviti Framsóknarmanna, Einar Eðvald Einarsson, segir að undanfarin ár hafi listarnir átt í góðu meirihlutasamstarfi í Sveitarfélaginu Skagafirði og sterkur vilji sé til að halda því áfram. Fulltrúar listanna eru með fimm manna meirihluta í níu manna sveitarstjórn.