Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lífsbjargandi nefúði markar tímamót í skaðaminnkun

18.05.2022 - 18:55
Mynd: Eggert Þór Jónsson / Fréttir
Nefúði sem getur komið í veg fyrir dauðsföll vegna lyfjamisnotkunar er nú aðgengilegur vímuefnanotendum þeim að kostnaðarlausu. Kristín Davíðsdóttir, teymisstjóri skaðaminnkunar hjá Rauða krossinum, segir þjónustuna marka tímamót. 

Kostnaðarsamt og flókið að nálgast lyfið

Naloxone er lyfseðilsskylt og er notað til að draga úr áhrifum ofskömmtunar af ópíóíðum. Það er í úðaformi og sprautað í nef notanda sem er í andnauð vegna of stórs skammts.  Nú geta notendur nálgast lyfið í Frú Ragnheiði, þeim að kostnaðarlausu.  

„Hér hefur ferlið verið þannig að einstaklingar hafa þurft að fá þetta upp á skrifað hjá lækni og þurfa síðan að greiða  sjö þúsund og fimm hundruð krónur fyrir skammtinn, sem eru miklir peningar. Þannig að það sem við gerum núna og leggjum áherslu á er að ná til þessara hópa þar sem morfínlyfin eru í umferð og koma lyfinu þangað þeim að kostnaðarlausu,“ segir Kristín. 

Með þessu sé stórt skref stigið í skaðaminnkun. „Þetta eru gríðarlega stór tímamót, bæði fyrir okkur sem vinnum með skaðaminnkun og ekki síst fyrir notendur og aðstandendur þeirra.“

Aukin neysla á skemmtistöðum

Naloxone getur komið í veg fyrir dauðsföll og óafturkræfan skaða sem getur hlotist af of stórum skammti en mikil aukning hefur orðið á lyfjatengdum dauðsföllum hér á landi.  Forsvarsmenn skemmtistaða hafa einnig óskað eftir að fá lyfið í sínar hendur. 

„Vegna þess að  þau hafa orðið vör við aukna neyslu í skemmtanalífinu og eins breytingu á þeim efnum sem eru í umferð.“

Kristín Davíðsdóttir, verkefnastjóri skaðaminnkunar hjá Rauða krossins
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - Fréttir
Kristín Davíðsdóttir, teymisstjóri skaðaminnkunar hjá Rauða krossinum.

Vill að ríkið grípi boltann

Verkefnið er fjármagnað með styrkjum næsta árið. Kristín vonast til að ríkið taki svo boltann og að lyfið verði niðurgreitt og aðgengilegt öllum, eins og notendur hafa lengi kallað eftir. 

„Þetta er ekki eitthvað sem fólk notar af léttúð. Það forðast það í lengstu lög en þetta er náttúrulega eitthvað sem bjargar mannslífum þannig þetta er gríðarlega mikilvægt og mikið öryggistæki fyrir einstaklinga að hafa. Ef ég myndi fá mér eitt nefsprey núna það breytir ekki neinu, þetta getur bjargað en veldur engum skaða. “

- Þið  hafið engar áhyggjur af því að fólk líti á þetta sem einhvers konar líflínu og verði djarfari í neyslu?

„Alls ekki og það er ekkert sem hefur verið sýnt fram á nokkurn tímann enda virkar þetta ekki svoleiðis. Einstaklingurinn notar þetta ekki á sjálfan sig heldur er þetta meira hugsað til þess að fólk geti þá bjargað öðrum sem það er í samneyti við. “