Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Heimild til bólusetningar barna staðfest

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Heilbrigðisráðuneytið hefur vísað frá kæru konu sem kærði synjun Embættis landlæknis, um að barn hennar yrði ekki bólusett gegn Covid-19.

Konan krafðist þess að ákvörðun landlæknis, um að stjórnvöld hefðu heimild til að bólusetja barnið, yrði snúið, og krafa hennar um að barnið yrði ekki bólusett viðurkennd. Ráðuneytið hafnaði kröfu konunnar og vísaði kærunni frá. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur er á vef Stjórnarráðsins.

Í kæru móðurinnar kemur fram að hún fari með forsjá barnsins ásamt föður en að lögheimili sé hjá föður. Konan greinir frá því að hafa 21. febrúar 2022 sent Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embætti landlæknis bréf þar sem hún hafi lagst gegn bólusetningu barnsins. Erindinu var synjað af landlækni í lok janúar 2022.

Samþykkis beggja krafist haldi foreldrar sama lögheimili

Konan vísar til þess að sóttvarnalæknir og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi frá áramótum staðið að bólusetningu barna á aldrinum 5-16 ára. 

Í þeim tilvikum þar sem foreldrar búi ekki á sama stað hafi sóttvarnalæknir sent út boð til lögheimilisforeldris og látið samþykki þess foreldris nægja fyrir bólusetningu, þrátt fyrir að forsjá barnsins sé sameiginleg. Búi foreldrar á sama lögheimili hafi samþykkis beggja þannig verið krafist. Þessa túlkun landlæknis á réttindum forsjárforeldra telur konan ranga.

Hún segir að í barnalögum sé fjallað um þau atriði sem lögheimilisforeldri geti tekið afstöðu til, þar á meðal séu ákvarðanir um venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. 

Bólusetning hvorki venjuleg né nauðsynleg

Konan byggir kæru sína á að bólusetning sé hvorki venjuleg né nauðsynleg, enda glími barn hennar ekki við undirliggjandi sjúkdóma. 

Konan segir að bólusetningin hafi jafnframt farið fram í miðjum heimsfaraldri og við óvenjulegar aðstæður. Bóluefni hafi ekki verið rannsökuð eða prófuð með jafn ítarlegum hætti og önnur bóluefni sem notuð séu hér á landi. Að hennar mati hafi mörg vestræn ríki komist að þeirri niðurstöðu að það sé áhættuminna að bólusetja ekki börn á þeim aldri sem barn hennar sé.

Lögheimilisforeldri hefur heimildina, en samráð æskilegt

Í rökstuðningi ráðuneytisins kemur fram að samkvæmt ákvæðum barnalaga hafi forsjárforeldrar samið um lögheimili og fasta búsetu barns hjá öðru þeirra. Það foreldri hafi heimild til að taka ákvarðanir um daglegt líf barnsins, meðal annars um venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. 

Að mati ráðuneytisins er það því á forræði lögheimilisforeldris að taka ákvarðanir sem lúta að valkvæðum bólusetningum gegn Covid-19. Forsjárforeldrar skuli þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en slíkum málefnum barns er ráðið til lykta.