Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Nándin ól ekki af sér neitt rosalega fallega hluti“

Mynd: Eggert Jónsson / RÚV

„Nándin ól ekki af sér neitt rosalega fallega hluti“

17.05.2022 - 15:23

Höfundar

Guðmundur Gunnarsson fréttastjóri Markaðarins hraktist frá Ísafirði með fjölskylduna eftir að hann hafði gegnt embætti bæjarstjóra þar í eitt og hálft ár. Það var bitur reynsla að þurfa að flýja heimaslóðirnar en ástæðurnar segir hann hafi verið vandamál sem gjarnan grasseri í smærri samfélögum; slúður, öfund, illt umtal og meðvirkni. Margt þykir honum kunnuglegt þegar hann fylgist með Kristínu í þáttunum Vitjanir, sem snýr aftur í gamla heimabæinn.

Það gengur á ýmsu í nýjasta þætti Vitjana, Dansa þau Vikivaka, sem sýndur var á RÚV á sunnudag. Kristín þarf að bregðast skjótt við þegar hópur fólks sýnir sérkennileg sjúkdómseinkenni og grunur vaknar að fólkið sé með smitsjúkdóm. Á sama tíma berst Ragnar við tilfinningar sínar í garð Kristínar.

Í hlaðvarpsþættinum Með Vitjanir á heilanum kíkti við fyrrum bæjarstjóri Ísafjarðar, Guðmundur Gunnarsson, fréttastjóri Markaðarins. Hann lítur fyrst og fremst á sig sem Vestfirðing og er alinn upp í Bolungarvík. Þaðan flutti hann um tvítugt en sneri aftur heim síðar til að taka við embætti bæjarstjóra Ísafjarðar, starfi sem hann brann fyrir. Sú reynsla varð ekkert eins og hann hafði séð fyrir sér og hann hraktist þaðan eftir tæp tvö ár í starfi eftir leiðindamóral sem hann upplifði. Guðmundur segir frá þessari reynslu, hvernig smábæjarstemningin sem birtist áhorfendum í Vitjunum getur haft sínar dökku hliðar.

„Það vita allir allt um þig og hvar þú ert búinn að vera“

Sem barn leið Guðmundi vel á heimaslóðum þar sem hann að eigin sögn ataðist í fjöllunum, gekk í skóla og reyndi að vera skikkanlegt barn foreldra sinna. Á fullorðinsaldri fór hann að finna fyrir útþrá og að sig langaði að skoða heiminn. Það gerði hann en segir að þorpið hafi alltaf fylgt sér, verið í sér. Þaðan fylgdust íbúar líka grannt með sínum manni. „Það vita allir allt um þig, hvar þú ert búnn að vera og í raun hvert þú stefnir oft á tíðum,“ segir hann.

Öryggi í fjöllunum og öryggi í samfélaginu

Þorpið þar sem barnskónum var slitið segir hann að hafi enda mikil mótunaráhrif og það hafi marga kosti að alast upp í litlu samfélagi. „Þegar ég fer heim í þorpið mitt finn ég öryggi. Það er ekki bara það að mér finnist öryggi fólgið í fjöllunum, það er í samfélaginu. Ég þekki alla, þarf ekki að þykjast neitt og sanna mig fyrir neinum,“ segir Guðmundur.

En þrátt fyrir að litla samfélagið hafi verndandi kosti geti það líka verið kaffærandi og fólk hefur tilhneigingu til að hólfa hvert annað. Það sé tilfinning hans að því minna sem samfélagið sé þá spili það stærri rullu hverra manni maður er, „hvaðan þú kemur, hver fortíðin er. Það eru ákveðin hólf og það skiptir ofboðslegu máli; hvaðan spretturðu.“

Ókostirnir við nándina, bæjarslúðrið

Fólk eigi það til að sveipa heimahagana ævintýraljóma sem svo rjátlist af þeim þegar raunveruleikinn blasir við. „Þegar maður flytur aftur eftir óákveðinn tíma og er kominn með þessa fjarlægð, þá fer að rifjast upp það sem maður vissi og var að bæla niðri. Þessi ókostir við nándina, bæjarslúðrið,“ segir hann.

Þessi mikli áhugi á samferðafólkinu komi að vissu leyti frá góðum stað en hann geti líka tekið á sig dekkri myndir. „Fólk fer að hafa óþægilega mikinn áhuga á nágrönnum sínum,“ segir hann. „Mér fannst, komandi til baka, að það væri pínu kaffæringatilfinning.“

Djúpstæður og óþarfur hrepparígur

Hrepparígur hafi verið stórt vandamál í æsku Guðmundar og það kom honum óþægilega á óvart að átta sig á því hvað hann væri lífsseigur, þegar hann sneri til baka.

Það sé til dæmis rígur á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, sem er veruleiki sem honum þótti eðlilegur þegar hann var yngri. Hann sé enn til staðar. „Svo fær maður fjarlægðina, flytur burt og kemur aftur og... maður þarf eiginlega að tala varlega,“ segir hann en bætir við: „Ég hélt þetta væri miklu minna í dag en þá en komst eiginlega í raun um að þetta er enn alveg ofboðslega ríkt. Það er aðeins í léttari dúr, ekki beint slegist fyrir utan skemmtistaðina og skipt í lið eftir þorpum, en þetta er rosalega djúpstætt.“

Reita fjaðrirnar hvert af öðru frekar en að standa saman

Guðmundi þætti sjálfum mun eðlilegra að fólk einbeitti sér heldur að því að standa saman. „Það er hægt að gera miklu meira ef fólk áttar sig á því að það gerist ekki nema það sé gert saman. Ísafjörður þarf jafnmikið á Bolungarvík að halda og öfugt, samt eru þau einhvern veginn að reita fjaðrirnar hver af öðrum. Bítast um hvar þessi verksmiðja á að vera eða hvar störf skapast. Eigum við ekki frekar að stefna að því að skapa jafnmörg störf í sömu greinum á báðum stöðum?“ spyr Guðmundur. „Það kom mér rosalega á óvart hvað þetta er enn ríkt.“

Ég treysti þér því ég þekkti afa þinn

Fólk sé líka dregið í dilka eftir því hverjir forfeður og -mæður þeirra séu. Hverra manna ertu? er spurning sem margir vilji vita svarið við og hólfa viðkomandi eftir því hvað svarið er og segi til dæmis: „Ég treysti þér því ég þekkti afa þinn og veit hvað hann stóð fyrir eða ég trúi ekki orði af því sem þú segir því ég veit hvað mamma þín stendur fyrir í ákveðnu málefni eða eitthvað slíkt,“ segir Guðmundur.

Endurupplifir endurkomuna í gegnum Kristínu í Vitjunum

Hann segir að þættirnir Vitjanir nái vel að fanga þennan anda og þorpssálina. Kristín er innanbúðarmanneskja, alin upp í samfélaginu en kemur samt líka ný inn í það þegar hún snýr til baka. Guðmundur tengir vel við hennar upplifun á því að flytja aftur heim. „Mér finnst ég nánast vera að endurupplifa það að flytja heim í gegnum hana,“ segir hann.

Sú reynsla segir hann hafa verið bæði góða og slæma. „Ég elska Vestfirði og mér líður hvergi betur en heima. Það er bara eitthvað við fjöllin, andrúmsloftið, fólkið og stemninguna,“ segir hann. En það var ekki allt gott við heimkomuna, alls ekki. „Það sem gerði reynsluna aðeins bitra eftir á að hyggja eru þessir dökku fletir. Ókostir við nándina. Það ól ekki af sér neitt rosalega fallega hluti.“

Rosalega dugleg að stugga hvert við öðru

Vandamálið sé helst fólgið í meðvirkninni sem grasseri gjarnan í smærri samfélögum. „Ugglaust kemur þetta frá góðum stað, fólk er að standa vörð um eitthvað hvort sem það eru einstaklingar eða einhverjir sem eru valdamiklir að standa vörð um heildina, um fjölskylduna, en átta sig ekki á því að á sama tíma eru þeir ekkert endilega að standa vörð um eitthvað sem þeir vilja sjá þróast áfram, eða að þetta er ekki falleg framkoma,“ segir Guðmundur.

Á tyllidögum segist Vestfirðingar vera sterk heild sem sæki saman að öllum þeim sem sæki að einum þeirra, „en á sama tíma erum við líka rosalega dugleg við að stugga hvert við öðru,“ segir hann.

Ekki samfelldur rósrauður Instagram-póstur

Og eins og í öllum fjölskyldum eigi sér eitthvað stað í hverju þorpi sem ekki þoli dagsljósið. „Það þekkja það allir úr öllum fjölskyldum að þetta er ekki einn samfelldur rósrauður Instagram-póstur,“ segir hann.

Meðvirknin sem einkennir smærri samfélög kemur glögglega fram í Vitjunum  þegar ljóst verður að Hanna þarf að þola ofbeldi heima hjá sér af hálfu eiginmanns síns. Þegar Kristín áttar sig á því gerir hún nokkuð sem fólk geri allt og sjaldan, „hún réttir fram hjálparhönd til að stinga á kýlinu,“ segir Guðmundur en þá treysti Hanna sér ekki til að þiggja hjálpina því hún segir meðal annars að allir viti hvaða fjölskylda þetta sé og hún eigi enga möguleika.

Samfélagið tók ranga afstöðu í ofbeldismálum

„Þetta kallaði fram mjög sterkar minningar. Ég man eftir allt of mörgum dæmum úr mínum uppvexti og æsku um heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi, og ég er ekki að segja þetta til að lasta bæinn eða samfélagið, en þar sem samfélagið í raun ruglaðist og tók bara kolranga afstöðu. Það taldi sig vera að vernda samfélagið og fjölskylduna en á sama tíma var það að taka afstöðu gegn þolanda,“ segir Guðmundur.

Þolendur séu allt of oft þeir sem hrökklist í burtu, sé ekki trúað því valdaójafnægið sé of mikið og meðvirknin sterk. „Við verðum líka að segja að sögulega eru þessi sjávarþorp rosalega karllæg samfélög. Það er verið svolítið á hnefanum,“ segir Guðmundur. „Valdaójafnvægið er bæði á milli þeirra sem eldri og yngri eru en líka kynjanna, alveg sláandi þegar maður horfir til baka. Það er að breytast en við erum bara ofboðslega mörg, landfræðilega eru þorpin eftir á.“

Sárt að samfélagið skyldi umbera öfundina og afbrýðissemina

Þó reynslan af endurkynnunum við búsetu á Vestfjörðum hafi verið bitur að mörgu leyti segir Guðmundur að þau mál séu öll upp gerð og sér líði vel í dag. Það hafi þó alltaf staðið til að flytja aftur heim og hann hafi verið spenntur þegar honum bauðst draumastarfið, að verða bæjarstjóri og fá tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið, „samfélagið sem ég elska,“ segir hann.

En þegar einhverjum hafi þótt sólin skína of skært á sig hafi hann fundið fyrir öfund og afbrýðissemi. „Það er bara hluti af mannlegri hegðun, en að samfélagið skyldi umbera það, gera ekkert í því og jafnvel ýta undir það varð á endanum til þess að við hugsuðum: Ég held við ættum bara að flytja héðan aftur.“

En þrátt fyrir það eru Vestfirðir alltaf heimili Guðmundar og hann fer þangað reglulega ár hvert að heimsækja vini og fjölskyldu.

„Það tekur enginn Vestfirði úr mér þó ég búi ekki þar,“ segir hann loks. „Foreldrar mínir búa þarna, fullt af vinum og fjölskyldu þannig að það tekur enginn Vestfirði úr mér þó ég búi ekki þar.“

Rætt var við Guðmund Gunnarsson í þættinum Með Vitjanir á heilanum. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Hér er hægt að horfa á Vitjanir í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Ísafjarðarbær

Fyrrverandi bæjarstjóri flýr Ísafjörð