Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Meirihlutaviðræður gengið hratt í sögulegu samhengi

Mynd: rúv / rúv
Langar meirihlutaviðræður hafa sjaldan tíðkast í Reykjavík. Aðalástæðan er sú að í sex áratugi þurfti engar viðræður því Sjálfstæðisflokkur var með hreinan meirihluta.

Ef litið er næst okkur í tíma þá hefur Samfylkingin verið í meirihluta með öðrum flokkum eftir kosningar 2010, 2014 og ´18. 

Árið 2010 þegar Besti flokkurinn náði sex borgarfulltrúum byrjuðu meirihlutaviðræður svo að segja strax. 

Árið 2014 tilkynntu formenn Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar strax eftir kosningar að þeir ætluð að vera samstíga og ræða við Vinstri græn og Pírata. Samstarfið gekk eftir eftir skammar viðræður.

Eftir kosningar 2018 kom Viðreisn í meirihlutann í stað Bjartrar framtíðar. Meirihlutaviðræður hófust strax vikunni á eftir og lauk um viku síðar, hálfum mánuði eftir kosningar. 

Róstusamt var á kjörtímabilinu 2006 til tíu. Þá var sett met í meirihlutum en þeir urðu fjórir. Allir flokkar í borgarstjórn sátu einhvern tíma í meirihluta. Framsóknarflokkurinn var bæði í meirihluta til vinstri og til hægri, þar af lengst, tæp tvö ár, einn með Sjálfstæðisflokknum. Þetta er eina kjörtímabilið í borgarstjórn þar sem Framsókn hefur myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. 

Í tólf ár á undan þessu róstusama kjörtímabili var Reykjavíkurlistinn með hreinan meirihluta allan tímann. Þá þurfti engar meirihlutaviðræður. Framsóknarflokkurinn stóð að Reykjavíkurlistanum undir sama nafni allan tímann en hinir flokkarnir í Reykjavíkurlistanum má segja að hafi endað sem Samfylking og Vinstri græn. 

Og eins og áður sagði var Sjálfstæðisflokkurinn með hreinan meirihluta frá 1930 til 1994 ef frá er talið kjörtímabilið 1978 til ´82. Það kjörtímabil var Framsóknarflokkurinn í meirihluta með forverum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna; Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu. Þessir flokkar lýstu því yfir strax eftir kosningar að þeir ætluðu að mynda meirihluta. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV