Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Krefur Agnesi um tvær milljónir vegna ummæla á Facebook

17.05.2022 - 09:38
Agnes Bragadóttir, Kveðjukaka
 Mynd: Morgunblaðið
Aldís Schram hefur stefnt Agnesi Bragadóttur, fyrrverandi blaðamanni á Morgunblaðinu, fyrir ummæli í færslu sem birtust á Facebook á síðasta ári. Aldís krefst þess að fern ummæli verði dæmd ómerk og að Agnes verði dæmd til að greiða henni tvær milljónir króna.

Ummælin voru sett fram í tengslum við sakamál á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni, föður Aldísar, þar sem hann var sakaður um að hafa áreitt konu kynferðislega á Spáni fyrir fjórum árum.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Jón Baldvin af ákærunni en dóminum hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Færsla Agnesar vakti nokkra athygli. Hún merkti Bryndísi Schram, móður Aldísar í færslunni og sagði Aldísi hafa verið „aðalhvatamaður og leikstjóri“ að áðurnefndu dómsmáli. Þá sakaði hún Aldísi um að hafa reynt að nauðga sér á læstri sjúkrastofu.

Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aldísar, segir í samtali við fréttastofu að Agnesi hafi verið sent kröfubréf þar sem farið var fram á afsökunarbeiðni. Bréfinu var svarað þar sem ummælin voru sögð heimil og vítalaus. „Það er því eitthvað sem héraðsdómur þarf að skera úr um,“ segir Gunnar Ingi.

Hulda Björg Jónsdóttir, lögmaður Agnesar, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV