Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.
Jarðskjálftar valda forstjóra HS Orku ekki áhyggjum
17.05.2022 - 08:39
Forstjóri HS orku hefur ekki áhyggjur af jarðskjálftum á Reykjanesskaga. Þó verði farið á ný yfir viðbragðsáætlanir sem gerða vorur fyrir tveimur árum, segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS orku.
„Við erum orðin ýmsu vön. En þetta er allt undir Eldvörpum á því svæði núna. Og í raun og veru höfum við ekki fundið í okkar holum eða í okkar mælingum fyrir neinum breytingum,“ segir Tómas Már.
Tómas segir að ekkert landris sé undir virkjuninni í Svartsengi. Þá séu vatnsból Suðurnesjamanna norðar en svæðið sem er virkt nú. Viðbragsáætlanir eru sífellt í skoðun.
„Við gerðum náttúrulega fyrir tveimur árum síðan mjög miklar viðbúnaðaráætlanir og höfum þær til hliðsjónar núna ef þetta fer á versta veg. Við munum væntanlega kíkja á þær og fara yfir þær aftur. En við erum ansi vel undirbúin og höfum þurft að ganga í gegnum þetta áður,“ sagði Tómas Már í samtali við Fréttastofu RÚV í gær.