Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fylgjast vel með öllum mælitækjum

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir óvissustigi um helgina vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Þar hafa orðið 16 skjálftar yfir þremur að stærð síðustu tvo sólarhringa, þar af tveir yfir fjórum. Skjálfti 4,8 að stærð varð svo við Þrengslin á laugardag. Hvers má vænta á næstunni? Halldór Geirsson er jarðeðlisfræðingur og dósent við Háskóla Íslands.

„Það er ýmislegt að gerast á Reykjanesskaganum og svo sem eru leiddar líkur að því að við séum í upphafinu á umbrotahrinu sem gæti staðið yfir þess vegna í árhundruð með hléum en það sem er kannski fréttnæmast er að undir Svartsengi eða öllu heldur Þorbirni er hafið landris. Það er ekki í fyrsta skipti sem rís þar. Þar reis þrisvar árið 2020 og markar ákveðið upphaf að þessu umbrotatímabili sem er búið að vera á Reykjanesskaganum. Staðsetningin á þessu landrisi sem er nú við Svarstengi eða við Þorbjörn virðist vera á sömu slóðum og var árið 2020 og gerist líka með svipuðum hraða. Það er að segja, rishraðinn er svipaður og var þarna, kannski, hann var ekki alveg jafn í öllum þessum rishrinum árið 2020 en er svona svipaður og var í síðustu tveimur lotunum þar,” segir Halldór. 

Ómögulegt að spá fyrir um gos

Hann segir ómögulegt að segja til um hvort sé að fara að gjósa. Ekki séu sterkar vísbendingar eins og er um að kvika sé komin mjög nálægt yfirborði. Þó geti hún verið lúmsk og laumað sér upp án þess að mikið fari fyrir henni. 

„Þannig að það eina sem við getum bara gert er að fylgjast vel með öllum mælitækjum. Bæði skjálftamælum og öðrum mælum og mæliaðferðum sem mæla jarðskorpuhreyfingar. Og vona að við sjáum þetta áður en það kemur upp en það má vel vera að það séu áratugir, þess vegna, áður en einhver kvika kemur upp á yfirborðið,” segir Halldór. 

Svo verður stór skjálfti, 4,8 að stærð í Þrengslunum. Er hann tengdur þessu öllu saman? 

„Ja, það er erfitt að segja. Hann er kannski ekki beint tengdur þessu sértæka landrisi við Þorbjörn. Þar er kannski heldur langt á milli. En þetta er í sjálfu sér ekkert óvenjulegur skjálfti sem var þarna í Þrengslunum. Þetta er hluti af flekaskilunum sem að marrar í og þessi skjálfti virðist hafa greinilega hafa verið á einni af þeim sprungum sem eru þar,” segir Halldór.

Landris veldur skjálftum

Halldór segir að ekki sé hægt að segja til um hvort von sé á stærri skjálftum út frá staðsetningu nýjustu skjálfta. „Nei, það er í sjálfu sér ekki hægt að lesa beint í það. Á meðan að kvika eða gös eða annað sem veldur landrisi er í gangi þá ýtir það á jarðskorpuna sem er allt í kring og veldur skjálftavirkni sem getur verið á töluvert stóru svæði. Miklu stærra svæði en endilega uppsprettan að landrisinu er. Þetta sáum við mjög vel, til dæmis, í kringum bergganginn sem var að myndast áður en að byrjaði að gjósa í Fagradalsfjalli. Þá náði skjálftavirknin töluvert langt. Kannski tuttugu kílómetra eða fimmtán kílómetra til vesturs og kannski tíu kílómetra til austurs og það var það sem við kölluðum á þessum tíma gikkskjálfta. Þetta eru sem sé þessar spennubreytingar eða kvikan ýtir á jarðskorpuna sem er í kring sem veldur því að misgengi hrökkva til og þegar að misgengi hrökkva til fáum við jarðskjálfta."

Og það er það sem er að gerast núna? 

„Ja, það virðist vera það sem er að gerast núna. Það var sem sé töluvert mikil jarðskjálftavirkni núna um helgina við Eldvörp sem er aðeins vestar af svæðinu sem risið er á. Við sjáum ekki vísbendingar um beinar kvikuhreyfingar á þeim stað. Við köllum þetta kannski tektonískar hreyfingar. Hefur ýtt við einhverjum sprungum. En svo er kannski líka bara full ástæða til að fylgjast með mælitækjum því að hreyfingarnar eru tiltölulega litlar. Við erum núna komin með allt í allt kannski núna tvo cm af risi samanborið við tíu cm árið 2020. Það tekur svona hægar hreyfingar nokkra daga eða jafnvel lengri tíma að sjá ef að hreyfingamynstrið hefur breyst.” Hversu langan tíma það mun taka segir Halldór erfitt að segja til um. Þar skipti hraði breytinganna máli og því hraðari sem þær eru, því auðveldara sé að mæla þær.

Annað gervitunglanna bilað

„Svo spilar nú kannski aðeins inn í þetta að árið 2020 vorum við með mjög góðar mælingar úr svokölluðum inSAR gervitunglum sem eru radar-gervitungl sem hjálpar mjög mikið til við vöktun á þessu. Eitt þessara gervitungla er sem sagt bilað svo þar af leiðandi er lengra á milli myndanna sem við fáum og það eru allt að tólf dagar á milli mynda. Von er á næstu myndum 19. maí. Þá verður spennandi að sjá hvað verður búið að gerast.” Hann segir að nú líti út fyrir að kvika sé á um það bil fjögurra kílómetra dýpi. Á myndunum muni koma skýrt fram ef kvika er að safnast saman á grynnra dýpi. 

En fram að þessu þarf fólk að vera viðbúið því að það geti bæði gosið og komið stærri skjálftar? 

„Já það er sjálfsagt að vera viðbúið því þannig að þegar að kvika, eða því hefur reyndar verið haldið fram að það geti líka verið eldfjallagös sem eru að valda hluta af þessu hreyfingum og jafnvel breytingum í jarðhitakerfinu en það kemur þá út á eitt því það er ekki langt í kviku ef svona mikið af gösum eru á ferð. Og á meðan að þessi kvika er að ýta á jarðskorpuna, ýta henni til að þá eru auknar líkur á meiri skjálftavirkni,” segir Halldór að lokum.