Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Davíð vill ekki grænþvott heldur raunverulegar lausnir

Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV
Einn ríkasti maður landsins hefur stofnað fyrirtæki sem ætlað er að aðstoða þau sem sett hafa fram lausnir á loftslagsvánni. Davíð Helgason sem auðgaðist á leikjahugbúnaðargerð, hefur stofnað fyrirtækið Transition Labs sem ætlað er að aðstoða hugmyndasmiði lausna á sviði kolefnisföngunar og -förgunar og draga þannig úr loftslagsáhrifum. Davíð segir fyrirtæki ætli sér ekki að stunda grænþvott heldur leiti að fyrirtækjum sem geti haft raunveruleg áhrif. 

Höfuðstöðvar hins nýstofnaða fyrirtæki Transition Labs eru að Lækjargötu í Reykjavík. Það ætlar að aðstoða fyrirtæki sem vinna að lausnum gegn loftslagsvandanum.

Ætla að hjálpa fyrirtækjum og flýta boðleiðum

„Með sérhæfingu, með afli og krafti og tengja saman þá þætti sem þarf til þess að láta svona verða að veruleika. Þar erum við að nota ýmis tengsl, bæði innanlands og erlendis. Og mikla sérhæfingu og sérþekkingu sem meðal annars er til hér á Íslandi í þessum iðnaði,“ segir Kjartan Ólafsson, framkvæmdastjóri Transition Labs

Stofnandi fyrirtækisins er Davíð Helgason. Hann komst í álnir þegar hann stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið Unity en hugbúnaðinn nota margir leikjaframleiðendur í leiki sem ýmist erum í símum, borðtölvum eða leikjatölvum. Davíð bendir á að loftslagsvandinn sé stærsti vandi mannkyns nú. 

Skemmtilegt og nauðsynlegt að vinna gegn loftslagsvá

„Og eftir að hafa byggt upp hugbúnaðarfyrirtæki í voðalega mörg ár, þá ákvað ég að þetta væri skemmtilegt og nauðsynlegt verkefni. Þannig að ég fór út í það og hef verið að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem eru að vinna með tæknilausnir á loftslagsvandamálinu. Í því að við vorum að tala við fullt, fullt af fyrirtækjum kom í ljós að það gæti verið að Ísland hefði eitthvað að leggja til málanna þar. Sum þessara fyrirtækja höfðu áhuga á að koma til Íslands og byggja upp rekstur af ýmsum ástæðum og sum þeirra vissu ekki að þau ættu að koma til Íslands en við sáum að það var möguleiki,“ segir Davíð Helgason.

Rækta þang í sjó

Fyrsta fyrirtækið sem kemur í faðm Transition Labs heitir Running Tide. Það stefnir að umfangsmikilli þangræktun lengst á hafi úti og binda þannig koltvísýring og vinna gegn súrnun sjávar.  

„Við hliðina á þessu er ég ennþá að fjárfesta í sprotafyrirtækjum úti um allan heim,“ segir Davíð.

Hundruð starfa

Davíð segir að tugir munu starfa hjá Transistion Labs og hundruð sérfræðistarfa verði til hjá fyrirtækjunum sem það aðstoði. 

Og fæst eitthvað uppgefið hvað það eru miklir fjármunir í fyrirtækinu?

„Í bili bara frekar litlir. Þetta er í raun bara sérþekking og í raun svona aðstoðarþjónusta. Þannig að þetta er ekki stórt fjárfestingarbatteríi,“ segir Davíð.

Enginn grænþvottur hjá Transition Labs

Sum fyrirtæki hafa verið sökuð um grænþvott með því að láta sig líta betur út í umhverfismálum en þau eru í raun. Verður það þannig hjá Transition Labs?

„Það er ekki þannig vegna þess að í þessu tilfelli, eins og það sem Running Tide er að framleiða er alvöru fjarlæging koltvísýrings úr sjó. Og það eru þá fyrirtæki sem eru þegar að losa sem vilja losa minna og losa minna, sem losa minna með því að binda. Nei, ég lít ekki á það sem grænþvott. Það er fullt af grænþvotti í heiminum og ég hef engan áhuga á að taka þátt í því. Það er frekar ógeðslegt. En sem sagt við erum að leita að fyrirtækjum sem geta haft alvöru pósitív áhrif,“ segir Davíð.