Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Davíð Helgason hyggst greiða götu loftslagsverkefna

Mynd: Aðsend / RÚV
Davíð Helgason, stofnandi leikjahugbúnaðarfyrirtækisins Unity, hefur stofnað fyrirtækið Transition Labs, ásamt Kjartani Erni Ólafssyni frumkvöðli og tæknifjárfesti. Markmiðið er að aðstoða frumkvöðla loftslagsverkefna við að gera þau að rekstrarhæfu fyrirtæki.

Auk Davíðs og Kjartans eru Ásta S. Fjeldsted og Kristinn Árni Lár Hróbjartsson í stjórn Transition Labs. Höfðustöðvar fyrirtækisins eru að Lækjargötu 2 í Reykjavík.

„Við sem stöndum að Transition Labs lítum svo á að nú þegar séu til margar áhrifaríkar lausnir til þess að kljást við loftslagsvandann. Það sem hefur kannski hvað helst staðið þessum lausnum fyrir þrifum er hvað það er flókið að byggja þær upp á stórum skala þannig að þær geti fari að hafa áhrif hratt og örugglega. Það er akkúrat þar sem við ætlum að einhenda okkur í loftslagsbaráttuna og reyna að auðvelda öðrum lausnum að stækka hratt og örugglega,“ segir Kjartan Ólafsson,  framkvæmdastjóri Transition Labs.

Þá með fjármagni?

„Nei, ekki með fjármagni. Með sérhæfingu, með afli og krafti og tengja saman þá þætti sem þarf til þess að láta svona verða að veruleika. Þar erum við að nota ýmis tengsl, bæði innanlands og erlendis. Og mikla sérhæfingu og sérþekkingu sem meðal annars er til hér á Íslandi í þessum iðnaði,“ segir Kjartan.