Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úkraínskir hermenn fluttir úr stálverksmiðju í Mariupol

16.05.2022 - 22:29
In this photo taken from video smoke rises from the Metallurgical Combine Azovstal in Mariupol, in territory under the government of the Donetsk People's Republic, eastern Ukraine, Tuesday, May 3, 2022. (AP Photo)
 Mynd: AP - RÚV
Yfir 260 úkraínskir hermenn hafa verið fluttir úr Azovstal stálverksmiðjunni í hafnarborginni Mariupol. Þetta staðfestir Ganna Malyar, staðgengill varnarmálaráðherra Úkraínu.

„53 alvarlega særðir hermenn voru fluttir á brott úr Azvostal á sjúkrahús nærri Novoazovsk til að fá læknisaðstoð,“ segir í yfirlýsingu Malyar sem AFP greinir frá. Þar segir jafnframt að 211 hermenn hafi verið fluttir til borgarinnar Olenivka.

Bæði Novoazovsk og Olenivka eru undir stjórn rússneska hersins og aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum.

Í yfirlýsingu Malyar segir að nú taki við samningaviðræður um að koma hermönnunum heilum á húfi heim. Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti kveðst vonast til þess að hægt verði að bjarga lífi „strákanna sinna“.

„Ég vil undirstrika að Úkraína þarf á því að halda að hetjur okkar séu lifandi. Það er grunngildi okkar,“ sagði forsetinn meðal annars í myndbandsfærslu.