
Þjóðverjar ætla að hætta olíuinnflutningi frá Rússlandi
Bloomberg-fréttaveitan greinir frá ákvörðun Þýskalandssstjórnar um að hætta olíuinnflutningi frá Rússlandi og vísar í ónefndan heimildarmann í þýska stjórnkerfinu. „Vinnu við að tryggja samninga við aðra birgja vindur fram á kanslaraskrifstofunni í Berlín og ríkisstjórnin er þess fullviss að hún geti leyst úr því sem á vantar á næstu sex til sjö mánuðum,“ hefur Bloomberg eftir heimildarmanni sínum.
Andstaða við að banna eldsneytiskaup af Rússum
Hugmyndir um að innflutningsbann á rússneskri olíu verði á meðal næstu refsiaðgerða Evrópusambandsins gegn Rússlandi hafa mætt nokkurri andstöðu meðal nokkurra aðildarríkja.
Það á líka við um tillögur um að hætta kaupum á rússnesku gasi. Þar eru það ekki síst Þjóðverjar sem andæfa, enda háðari rússnesku gasi en flest önnur Evrópusambandsríki.
Zelensky brýnir bandamenn sína til aðgerða
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti ítrekaði í gærkvöld nauðsyn þess að herða enn refsiaðgerðir gagnvart Rússum og tiltók sérstaklega að Evrópuríki yrðu að hætta að kaupa af þeim olíu. „Bandamenn verða í viku hverri að taka ákvarðanir sem skerða tengsl Rússa við umheiminn. Innrásarríkið verður að finna fyrir vaxandi stríðskostnaðinum, alltaf, stöðugt,“ sagði forsetinn í daglegu ávarpi sínu í gærkvöld.
„Núna er olíuinnflutningsbann forgangsmál. Sama hvað Moskva reynir til að hindra þá ákvörðun, þá er það brátt liðin tíð að Evrópa sé háð rússneskum orkugjöfum.“