Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Slípirokk þurfti til að ná styttunni úr eldflauginni

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Styttan af Guðríði Þorbjarnardóttur var í dag losuð út úr eldflaug sem tvær listakonur smíðuðu utan um hana. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar sótti styttuna og ók með hana í heimabæinn. Hann segir málið fáránlegt. 

Eftir tveggja mánaða veru í eldflauginni var styttan af Guðríði Þorbjarnardóttur og flaugin færð inn í vélsmiðju á Akranesi í dag. Styttan var tekin ófrjálsri hendi af stalli sínum að Laugarbrekku á Snæfellsnesi, í mars. Listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir komu styttunni fyrir í heimagerðri eldflaug og settu upp við Nýlistasafnið í Reykjavík. Bæjarstjórinn í Snæfellsbæ kærði þjófnaðinn á styttunni og skemmdarverk.

Fengu heimild til húsleitar inni í eldflauginni

Lögregla óskaði eftir beiðni Héraðsdóms Vesturlands til að fá að gera gat á eldflaugina til að ná styttunni úr henni en fékk synjun. Þá var leitað til Landsréttar sem veitti leyfi fyrir húsleit inni í eldflauginni til þess að leita að og ná í styttuna. 

Listakonurnar voru viðstaddar þegar stytta og eldflaug voru skilin að en vildu ekki veita viðtal. Fjölmiðlar fengu ekki að vera viðstaddir sjálfan aðskilnaðinn. Beita þurfti slípirokki til þess að losa burt botninn úr flauginni. Undir styttunni eru sundursagaðar festingar sem festu hana áður á stöpulinn að Laugarbrekku. Þessar festingar höfðu verið festar á stoðgrind og grindin fest í botninn á eldflauginni og innan á veggi hennar. 

Styttan aftur á heimaslóðir

Eldflaugin varð eftir í vörslu lögreglunnar en styttan fékk að fara aftur á heimaslóðir. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar tók á móti styttunni sem fulltrúi eigenda. Hann var ánægður með að fá aftur styttuna.

„Mjög glaður. Gott að hún sé komin alla vega í mína vörslu aftur,“ segir Kristinn Jónasson  bæjarstjóri Snæfellsbæjar.

Hvernig líst þér á hana, er hún heil?

„Það er ekkert að styttunni sjálfri en festingarnar sem hún er fest á stallinn þar sem hún var, þær eru ónýtar. Við þurfum að finna eitthvað út úr því hvernig við búum til nýjar festingar,“ segir Kristinn.

Heldurðu að það verði einhver kostnaður í kringum það?

„Já, já, það þarf að bora nýjar festingar, steypa, græja og gera og allt kostar þetta einhverja fjármuni,“ segir Kristnn.

Og áttu von á því að fá þá til baka frá þeim sem styttuna tóku?

„Ég ætla alla vega að reyna það,“ segir Kristinn.

Svona í einni setningu hvað finnst þér um þetta mál allt saman?

„Fáránlegt,“ segir Kristinn.