Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

NATO-aðild rædd á þingi í Finnlandi og Svíþjóð í dag

epa09948568 Finnish President Sauli Niinisto and Prime Minister Sanna Mari speak to the media at the Presidential Palace in Helsinki, Finland, 15 May 2022. Finland’s President Sauli Niinisto and Prime Minister Sanna Mari announced during the press conference that their country will apply to join NATO.  EPA-EFE/MAURI RATILAINEN
Sanna Marin og Sauli Niinistö, forsætisráðherra og forseti Finnlands, tilkynna afstöðu sína til umsóknar um NATO-aðild Finnlands Mynd: EPA-EFE - COMPIC
Hvorttveggja Svíþjóð og Finnland munu sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu innan skamms og jafnvel strax í þessari viku. Þetta varð endanlega ljóst eftir að forseti Finnlands gaf út formlega yfirlýsingu um þetta og ríkisstjórnarflokkur Jafnaðarmanna lýsti sig fylgjandi aðild Svíþjóðar að bandalaginu, með fyrirvara þó. Sá fyrirvari kveður á um að NATO komi hvorki upp varanlegum herstöðvum né kjarnorkuvopnum á sænskri grundu. Tillaga um aðildarumsókn verður lögð fyrir þjóðþing landanna í dag.

Þarf ekki samþykki þingsins í Finnlandi

Í Finnlandi er strangt til tekið ekki nauðsynlegt að frá samþykki þingsins til að stíga þetta skref, þar sem lög landsins kveða á um að forsetinn og ráðherranefnd um öryggismál taki slíkar ákvarðanir.

Þau Sauli Niinistö forseti og Sanna Marin forsætisráðherra voru þó sammála um að rétt væri að leggja svo afdrifaríka ákvörðun fyrir þingið. Talið er fullvíst að málið fái brautargengi þar.

Mikill meirihluti fyrir aðild á sænska þinginu

Það á líka við um sænska þingið. Málið er umdeilt innan Jafnaðarmannaflokks Magdalenu Andersson, sem hefur haldið hlutleysisstefnunni hátt á lofti um 200 ára skeið. Meirihluti þingflokksins er þó fylgjandi aðild, rétt eins og drjúgur meirihluti allra þingmanna annarra flokka. Einungis Græningjar og Vinstriflokkurinn eru mótfallnir aðild.

Spyrja ekki þjóðina

Í hvorugu landinu er fyrirhugað að bera málið undir þjóðaratkvæði. Skoðanakannanir sem gerðar hafa verið eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu hafa sýnt meirihlutastuðning við NATO-aðild í báðum löndum. Þrír af hverjum fjórum finnskum kjósendum vilja að Finnland gangi í bandalagið samkvæmt nýjustu könnuninni þar í landi.  

Rússar reiðir en NATO-ríki fagna

Rússar hafa varað við því að aðilarumsókn og innganga Norðurlandanna tveggja muni hafa alvarlegar afleiðingar, án þess þó að útskýra það í smáatriðum. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO og leiðtogar nánast allra aðildarríkja þess hafa hins vegar fagnað boðaðri umsókn og heita því að greiða leið þeirra inn í bandalagið eins og kostur er.

Tyrkir með fyrirvara

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur þó sett fyrirvara við umsókn þeirra, sér í lagi Svíþjóðar, sem hann sakar um að skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn úr röðum Verkamannaflokks Kúrda, PKK. Tyrkir skilgreina hreyfinguna sem hryðjuverkasamtök.

Bæði Stoltenberg og Joe Biden, Bandaríkjaforseti, segja Tyrki ekki á móti aðild landanna tveggja og utanríkisráðherra Tyrklands staðfestir það. Hins vegar þurfi löndin að hætta stuðningi við PKK og aflétta viðskiptaþvingunum sínum gagnvart Tyrklandi, vilji þau stuðning Tyrkja.