Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Líklegast að ráðinn verði bæjarstjóri á Akureyri“

16.05.2022 - 12:03
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Bæjarlistinn (L-listi) hófu í gær formlegar viðræður um meirihlutasamstarf á Akureyri. Stjórnmálafræðingur segir flokksforystu minni en áður en fjórflokkurinn tapaði allur fylgi á Akureyri.

Eru með traustan meirihluta

Arnar Þór Jóhannesson, stjórnmálafræðingur við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, segir það hafa legið í augum upp að flokkarnir þrír færu í viðræður. 

„Já, mér finnst það svona frekar rökrétt. Þetta er traustur meirihluti, þeir bæta við sig L-listinn einum manni. Þetta er 7 manna meirihluti af 11. L-listinn er í sterkustu stöðunni, þeir eru með flesta menn, bæta við sig manni og eru svolítill sigurvegari kosninganna ásamt Flokki fólksins. Þannig að þau ættu að njóta þess svolítið þegar kemur að málefnastarfinu og einnig úthlutun embætta þá.  

„Halla Björk álitlegur kostur í bæjarstjórann“

En bæjarstjóraembættið?

„L-listinn hefur alltaf talaði svolítið fyrir ópólitískum bæjarstjóra en auðvitað gæti Halla Björk, sem er reynslubolti og er í þriðja sæti og komst þarna inn, verið álitlegur kostur í bæjarstjórann. En mér finnst nú mjög líklegt að það verði sá háttur sem verið hefur að það verði það sem er kallaður ópólitískur eða faglegur bæjarstjóri.

Fjórflokkurinn tapaði allur fylgi

Arnar Þór segir að vinstri flokkarnir tveir, Samfylking og vinstri græn, hafi líklegast tapað nokkru af sínu fylgi til Flokks fólksins sem hlaut ríflega 12 prósentu fylgi í sínum fyrstu sveitarstjórnarkosningum á Akureyri.

„Það segir okkur líka að fólk sé tilbúið að skipta um, kjósa annað heldur en síðast. Fjórflokkurinn tapar allur fylgi. Við erum bara að sjá hreyfingu á fylginu, fólk er tilbúið að kjósa eitthvað annað en það kaus síðast, það er minni flokkshollusta.“