Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guðríður laus úr eldflauginni og á leið heim

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Syttan af Guðríði Þorbjarnardóttur er laus úr eldflaug sem tvær listakonur komu henni fyrir í og miklar deilur staðið um síðan. 

Styttan var tekin ófrjálsri hendi af stalli sínum að Laugarbrekku á Snæfellsnesi, í mars. Listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir komu styttunni fyrir í heimagerðri eldflaug og settu upp við Nýlistasafnið í Reykjavík. Bæjarstjórinn í Snæfellsbæ kærði þjófnaðinn á styttunni og skemmdarverk.

Beiðni lögreglunnar á Vesturlandi um að aðskilja eldflaug og styttuna af Guðríði fór fyrir tvö dómstig. Héraðsdómur taldi að ekki væri nauðsynlegt að ná styttunni úr eldflauginni til að upplýsa hver hefði stolið henni. Ekki væru brýnir rannsóknarhagsmunir sem réttlæti að eyðileggja listaverk kvennanna tveggja, þ.e.a.s. eldflaugina.

Lögregla kærði úrskurð Héraðsdóms Vesturlands til Landsréttar sem samþykkti beiðni um að gera gat á eldflaugina til að ná styttunni út. Landsréttur byggir niðurstöðuna á því að lögum samkvæmt er heimilt að leita að þýfi í hirslum sakborninga. 

Um þrjúleytið í dag kom lögreglan svo með styttuna í eldflauginni á vélsmiðju á Akranesi. Botninn var tekinn af með slípirokk og styttan tekin úr eldflauginni. Hún virtist vera óskemmd við fyrstu sýn. 

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, mætti svo á vettvang og til stendur að koma styttunni aftur fyrir á stalli sínum að Laugarbrekku.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Guðríður á meðan hún var enn föst í flauginni.