Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grunaður læknir kominn í leyfi frá störfum

16.05.2022 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Læknir sem sætir lögreglurannsókn, grunaður um að hafa valdið ótímabæru andláti níu sjúklinga, er farinn í leyfi frá störfum á Landspítalanum þar sem erfitt var að tryggja að samskipti eigi sér ekki stað milli hans og sjúklinga.

Þetta kemur fram í svari Landspítalans við fyrirspurn fréttastofu. RÚV greindi frá því fyrir rúmri viku að læknirinn hafi í neyðartilvikum verið látinn sinna sjúklingum á Landspítalanum þrátt fyrir yfirlýsingar spítalans um að það yrði ekki gert. 

Forsagan er sú að læknirinn hefur verið til rannsóknar frá því snemma á síðasta ári. Í nýlegum úrskurði Landsréttar kom fram að málið hefði undið upp á sig og lyti nú að andláti níu sjúklinga á heilbrigðisstofnun Suðurnesja og fimm til viðbótar sem hefðu verið látnir hefja lífslokameðferð áður en þeir voru fluttir á hjúkrunarheimili og slíkri meðferð hætt.

Læknirinn var sviptur læknaleyfi í kjölfar rannsóknar Landlæknis, sem laut að mun færri tilvikum, en fékk það aftur og hóf í kjölfarið störf á Landspítalanum.

Erfitt að tryggja engin samskipti

Í yfirlýsingu frá spítalanum í desember kom fram að læknirinn hefði verið færður til í starfi og mundi ekki sinna sjúklingasamskiptum þar til skýrari mynd fengist af málinu sem til rannsóknar væri, eins og það var orðað.

„Ástæðan fyrir þeirri ákvörðun var að hér eftir sem hingað til væri fullt traust borið til starfsemi Landspítala,“ segir í svari Landspítalans í dag. Þar er ítrekað að umræddur læknir hafi síðan í desember haft það verkefni að yfirfara gagnasöfn til stuðnings við störf annarra lækna á legudeild A2 og COVID-göngudeild. 

„Hefur hann sinnt sínum verkefnum af kostgæfni og án athugasemda allt frá því hann hóf störf á Landspítala,“ segir í svarinu.

Fréttastofu barst nýlega ábending frá sjúklingi sem sagði að læknirinn hefði sinnt sér og útskrifað sig af bráðalyflækningadeild Landspítalans. Í svari frá upplýsingafulltrúa Landspítalans vegna þess sagði að af og til hafi komið upp á spítalanum, vegna manneklu og undirmönnunar, neyðartilfelli þar sem læknirinn hafi sinnt sjúklingum, en þá undir handleiðslu annars læknis. Og staðan virðist eins miðað við svar spítalans í dag.

„Aftur á móti eru aðstæður á spítalanum með þeim hætti að erfitt er að tryggja að samskipti eigi sér ekki stað milli sjúklinga og umrædds læknis,“ segir í svarinu, þar sem tekið er fram að vegna þessa hafi læknirinn farið í leyfi frá störfum að eigin ósk.