Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flestir vilja nöfnin Skagafjörður og Húnabyggð

16.05.2022 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Fimm sveitarfélög fá nýtt nafn eftir kosningarnar um helgina. Á laugardaginn var kosið um nöfn á tvö þeirra: Skagafjörður og Húnabyggð. 

Langflestir íbúar Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps völdu nafnið Húnabyggð.

Niðurstöður í nafnavali í Skagafirði voru ekki eins afgerandi en flestir vilja að sameinað sveitarfélag Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar heiti einfaldlega Skagafjörður. 

Fyrir kosningar höfðu íbúar sameinaðs sveitarfélags Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar valið nafnið Þingeyjarsveit.

Nýtt sveitarfélag Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps fær að öllum líkindum nafnið Langanesbyggð en skoðanakönnun var haldin meðal íbúa í byrjun mánaðar.

Í fimmta nýja sveitarfélaginu, sem varð til við sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar, er stefnt að því að halda rafræna hugmyndasöfnun fljótlega.