Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri látist úr COVID-19 hér á landi en talið var

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Embætti landlæknis hefur farið yfir dánarvottorð allra þeirra sem látist hafa á landinu frá upphafi kórónuveirufaraldursins til 1. apríl á þessu ári. Samkvæmt yfirferðinni hafa samtals orðið 153 andlát á Íslandi vegna COVID-19, en það eru fleiri en áður hefur verið talið.

Á covid.is hafa ýmsir tölfræðiþættir tengdir faraldrinum verið birtir frá upphafi, og meðal annars fjöldi andláta. Á síðunni stendur nú að 120 hafi látist af völdum COVID-19, svo ljóst er að andlátin eru fleiri en talið var.

Í tilkynningu á vef landlæknis kemur fram að andlátin sem talin eru til covid-andláta séu tilvik þar sem COVID-19 greindist innan 28 daga fyrir andlátið og valdið dauða samkvæmt dánarvottorði.

Ekki tilkynnt um 50 covid-andlát í ár

Sóttvarnalækni barst 101 tilkynning frá sjúkrahúsum um covid-dauðsföll frá upphafi faraldurs, en á vef landlæknis segir að miðað við dánarvottorð hafi tvö andlát ekki verið tilkynnt árið 2020 og 50 andlát það sem af er þessu ári.

„Skýringin á því að ekki voru öll dauðsföll tilkynnt beint til sóttvarnlæknis á þessu ári er sú að ekki var óskað eftir því fyrr í lok febrúar 2022 að allar heilbrigðisstofnanir sendu slíkar tilkynningar. Hjúkrunarheimili voru því ekki að senda tilkynningar beint til sóttvarnalæknis í byrjun árs og hafa ekki öll haft tök á að senda þær. Hjúkrunarheimilin og sóttvarnalæknir hafa verið meðvituð um þetta misræmi og að endanlegur fjöldi COVID-19 tengdra dauðsfalla lægi ekki fyrir fyrr en eftir yfirferð dánarvottorða,“ segir á vef landlæknis. 

Þá er tekið fram að í apríl hafi 18 andlát verið tilkynnt og eitt það sem af er maí. Það bendir því til að talan eigi eftir að hækka, en það á eftir að staðfesta með dánarvottorði.

Marktæk aukning andláta í mars 2022

Áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda andláta á tímum COVID-19 er talin vera með því að skoða svokölluð umframdauðsföll, en það er fjöldi dauðsfalla af öllum orsökum borinn saman við meðalfjölda andláta undanfarinna ára.

Þegar það er skoðað sést marktæk aukning í mars síðastliðnum hjá einstaklingum 70 ára og eldi, en ekki sést aukning fyrir heildarfjölda andláta. Þá sást marktæk fækkun andláta hjá þessum aldurshópi árin 2020 og 2021, en hún er talin skýrast af þeim sóttvarnaaðgerðum sem þá voru í gildi sem drógu verulega úr sýkingum almennt.

Mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er að dauðsföll vegna COVID-19 hafi verið stórlega vantalin í heiminum, en misjafnlega mikið eftir löndum og svæðum.