
Erdogan ætlar ekki að samþykkja umsóknir Finna og Svía
Forsetinn sagði á blaðamannafundi ótækt að samþykkja umsóknirnar þar sem ríkin hafi ekki beitt sér af nægri hörku gegn hryðjuverkasamtökum. Þau hafi skotið rótum í Finnlandi og Svíþjóð.
Nefndi Erdogan sérstaklega PKK, hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda, sem hann sagði eiga útsendara í löndunum tveimur. Einnig fylgismenn útlæga klerksins Fethullah Gulen, sem stjórn Erdogans sakar um að standa að baki valdaránstilraun ársins 2016.
Þá fullyrti Erdogan að hryðjuverkasamtök eigi fulltrúa á sænska þinginu og sagði landið útungunarstöð fyrir hryðjuverkamenn.
Öll bandalagsríkin, Tyrkland þar með talið, þurfa að samþykkja nýjar aðildarumsóknir og því ljóst að afstaða Tyrkja þarf að breytast ef Finnland og Svíþjóð eiga að fá inngöngu í bandalagið.
Sænska ríkisstjórnin sendir nú erindreka til Tyrklands til þess að reyna að afla stuðnings. Erdogan segir það óþarft, það muni engu breyta.