Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Áhrif útstrikana í Flóahreppi ekki einsdæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Útstrikanir sem höfðu áhrif á skipan kjörinna fulltrúa í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum í Flóahreppi eru ekki einsdæmi í sögu sveitarstjórnarkosninga hér á landi. Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson bendir á þetta.

Elín Höskuldsdóttir sem var stillt upp í öðru sæti T-listans í sveitarstjórnarkosningunum í Flóahreppi náði ekki kjöri þrátt fyrir að listinn hafi fengið tvo fulltrúa kjörna. Hún færðist niður í þriðja sæti listans vegna útstrikana. Sunnlenska greindi frá þessu og sagði jafnframt að þetta væri í fyrsta sinn sem útstrikanir hafi áhrif á skipan kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi. Í samtali við fréttastofu bendir Stefán þó á að það sé ekki rétt.

„Þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta sinn sem útstrikanir hafa áhrif á skipan kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi. Frægasta dæmið nær aftur til ársins 1934. Þá skipaði fræðimaðurinn Brynleifur Tóbíasson efsta sæti Framsóknarflokksins á Akureyri. Vegna útstrikana hafnaði hann aftur á móti í þriðja sæti, utan bæjarstjórnar, og missti Vilhjálm Þór fram fyrir sig.“

Stefán segir söguna svo hafa endurtekið sig í sama bæjarfélagi fjórum árum síðar. „Jón Sveinsson, oddviti Sjálfstæðismanna, varð einnig af bæjarstjórnarsæti á Akureyri vegna útstrikana.“ 

Hann telur jafnframt líklegt að dæmin séu fleiri en þau sem þegar hafa verið nefnd.

Í kosningunum í Flóahreppi hlaut T-listinn 129 atkvæði og þar af strikaði tæplega þriðjungur kjósenda yfir nafn Elínar. Við það færðist Harpa Magnúsdóttir, sem skipaði þriðja sæti listans, upp í annað sætið og hreppti því sæti í sveitarstjórn. Framfaralistinn (I-listinn) var sigurvegari kosninganna. Flokkurinn hlaut 255 atkvæði og fékk þrjá menn kjörna í sveitarstjórn.      

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Stefán Pálsson sagnfræðingur.