Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vill halda Eurovision í Mariupol á næsta ári

15.05.2022 - 03:39
Mynd með færslu
 Mynd: president.gov.ua
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti lýsti því yfir í kvöld að hann vilji halda Eurovision í úkraínsku hafnarborginni Mariupol að ári. Úkraínska sveitin Kalush Orchestra fór með sigur af hólmi í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fór í Tórínó á Ítalíu í kvöld.

Undir venjulegum kringumstæðum mundi það þýða að keppnin fari fram í Úkraínu á næsta ári. Kringumstæður eru þó allt annað en venjulegar í Úkraínu um þessar mundir en Zelensky lætur engan bilbug á sér finna. „Hugrekki okkar vekur aðdáun umheimsins, tónlistin okkar leggur Evrópu að fótum sér. Næsta ár verður Úkraína gestgjafi Eurovision,“ skrifar forsetinn í færslu á samfélagsmiðlinum Telegram, og bætir því við að hann vilji halda keppnina í Mariupol, sem er rústir einar eftir linnulausar árásir Rússa síðustu vikur og mánuði.