Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stærsti sigur Framsóknar - versta tap Sjálfstæðismanna

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn biðu sinn versta ósigur í Reykjavík í sögunni á sama tíma og Framsóknarflokkurinn og Píratar vinna sinn stærsta sigur.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 24,5 prósent atkvæða en hafði áður fengið minnst 25,9 prósent. Það var í kosningunum árið 2014. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 30,8 prósent. Það var aðeins í annað skiptið eftir stórsigur Sjálfstæðisflokksins 1990 sem flokkurinn jók fylgi sitt milli kosninga.

Framsóknarflokkurinn hlaut 18,7 prósent atkvæða og þarf að fara um hálfa öld aftur í tímann til að finna útkomu flokksins í Reykjavík sem kemst nærri þessari. Þá fékk flokkurinn 17,2% (1970) og 16,4% (1974).

Vinstri græn fengu 13,5 prósent þegar flokkurinn bauð fyrst fram í borginni árið 2006 en aðeins fjögur prósent í ár og hefur fylgið aldrei verið minna. Síðasta var það 4,6 prósent, rétt rúmlega helmingur þess sem flokkurinn fékk fjórum árum áður.

 

Samfylkingin er nærri sinni verstu niðurstöðu í borginni með 20,3 prósent atkvæða. Eina skiptið sem flokkurinn fékk verri útkomu var í fyrstu borgarstjórnarkosningunum eftir hrun, 2010, þegar flokkurinn fékk 19,1 prósent atkvæða.

Píratar hafa aukið fylgi sitt í borginni í hverjum kosningum frá því þeir buðu fyrst fram árið 2014. Þá fékk flokkurinn 5,9 prósent atkvæða en núna 11,6 prósent.

Fjórir flokkar buðu fram öðru sinni í borginni. Fylgi Sósíalista fór úr 6,4 prósentum síðast í 7,7 prósent núna. Flokkur fólksins stendur nokkurn veginn í stað en fylgi Miðflokksins fer úr 6,1 prósenti í 2,4 prósent. Viðreisn missir fylgi frá því í síðustu kosningum, fer úr 8,2 í 5,2 prósentum og tapar öðrum borgarfulltrúa sínum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV