Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Olíufyrirtæki sádí-arabíska ríkisins malar gull

15.05.2022 - 10:18
epa07237798 A view of Shaybah oilfield in Rub Al-Khali, Saudi Arabia, 17 December 2018. Shaybah oilfield started production in 1998 and began operations by Saudi Aramco. Its production has reached 1,000,000 bpd of very light Arab Oil. Its reserves are 16 billion barrels. It is an intermediate size Saudi oilfield.  EPA-EFE/VALDRIN XHEMAJ
Rub Al-Khali-olíuvinnslustöðin í Sádi-Arabíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Hagnaður olíufyrirtækisins Saudi Aramco, sem er nær alfarið í eigu sádí-arabíska ríkisins, jókst um 82% á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs ef miðað er við sama ársfjórðung í fyrra.

Hagnaður félagsins nam 39,5 milljörðum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi, sem nemur um 5.314 milljörðum króna, en til samanburðar nam hagnaður olíufélagsins 21,7 milljörðum dala á sama tímabili árið áður.

Í frétt Reuters segir að greinendur á olíumarkaði hafi reiknað með þessum mikla hagnaðarvexti, enda hefur olíuverð hækkað verulega undanfarna mánuði. Saudi Aramco segir einmitt hækkandi olíuverð og aukna sölu á olíu hafa leikið lykilhlutverk í hagnaðaraukningunni.

Í lok fyrsta ársfjórðungs kostaði hver tunna af Brent olíu tæplega 108 dali, sem er 70% hærra verð en fékkst fyrir hverja tunnu í lok sama ársfjórðungs árið 2021. Í dag fást rúmlega 111 dalir fyrir hverja tunnu.  

Vegna hækkandi olíuverðs hefur Saudi Aramco tekið fram úr Apple og tyllt sér í efsta sæti á lista yfir verðmætustu fyrirtæki heims. Saudi Aramco er metið á 2,42 billjónir dala en Apple fylgir fast á hæla olíufyrirtækisins. Tæknirisinn er metinn á 2,37 billjónir dala.

1,7% hlutur í Saudi Aramco var skráður í Kauphöllina í Sádí-Arabíu árið 2019. Hagnaður síðasta ársfjórðungs er sá mesti sem félagið hefur skilað á stökum ársfjórðungi frá skráningu á markað. Gengi hlutabréfa félagsins hefur hækkað um 37% frá því í byrjun árs.