Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Jarðskjálftahrina líklega vegna kvikusöfnunar

15.05.2022 - 21:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson, Geir Óla - RÚV
Jarðskjálftahrina hófst við Eldvörp á Reykjanesskaga, norðvestan við Grindavík í dag. Sex skjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst. Sá stærsti, 4,7, varð um klukkan tuttugu mínútur í sex síðdegis og fannst meðal annars á höfuðborgarsvæðinu. Vegfarendur eru varaðir við grjóthruni og skriðum í bröttum hlíðum þegar jörð skelfur.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvaktar hjá Veðurstofu Íslands segir þau þó ekki vita til þess að neinar skriður hafi fallið í dag. Skjálftarnir eru nú orðnir yfir 560 talsins á svæðinu í dag.

„Við höfum verið að sjá, síðan fyrir helgi, vísbendingar um það að þensla og landris sé við Svarstengi svipað og var 2020“ sagði Kristín í viðtali í kvöld klukkan 19.

Hvar er þá líklegast að kvika komi upp, ef komi til eldgoss?

„Við teljum sem sagt frekar líklegt að við séum að sjá upphafið af kvikusöfnun við Svarstengi og það er auðvitað ekkert óhugsandi það geti endað með eldgosi, en það er enþá alltof snemmt að segja um það“ sagði Kristín.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að stærsti skjálftinn hefði mælst 4,3. Við nánari yfirferð sérfræðinga Veðurstofunnar sýndi sig að hann var 4,7 að stærð og hefur fréttin verið leiðrétt til samræmis við það.