Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Ég elska sköpun meira en lífið“

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons

„Ég elska sköpun meira en lífið“

15.05.2022 - 16:02

Höfundar

Sonia Delaunay var frumkvöðull á sviði framúrstefnulegrar abstraktlistar á fyrri hluta 20. aldar og teygði hún möguleikana langt út fyrir strigann. Hún hannaði einnig klæðilega list eins og kjóla og búninga fyrir leiksýningar, fékkst við auglýsingagerð en myndskreytti einnig óvæntari fyrirbæri eins og bíla. Dýnamísk notkun bjartra lita var kjarninn í sköpun hennar, sem er afar áhrifamikil þótt nafn hennar sé ekki endilega á allra vörum.

Árið 1968 fjallaði franski sjónvarpsþátturinn Quatre temps um uppgötvun eða enduruppgötvun franska tískuhússins Dior á merkilegri kjólahönnun frá árinu 1925. Hönnunin þótti eins og nýjasta nýtt í tískuheiminum þrátt fyrir að vera þá orðin yfir 40 ára. Í þættinum tók söngvarinn Jacques Dutronc viðtal við listakonu og hönnuð kjólsins, þar sem hún sat fyrir framan nýju listaverkin sín á Galeri XXe Siécle. Það var Sonia Delaunay, þá 83 ára. 

Við hlið Soniu situr einnig listrænn stjórnandi hjá Dior, Marc Bohan, og þau ræddu fyrri verk Soniu auk nýja gamla kjólsins, það sem þau kalla abstrakt-kjólana. Að viðtalinu loknu steig franska poppstjarnan Fancoise Hardy fram á stórt svið með bakgrunni sem Sonia Delaunay hannaði líka, klædd í kjólinn fræga og söng franska útgáfu af ameríska laginu „It hurts to say goodbye“. Og þarna, í sjónvarpinu árið 1968, eftir þessa enduruppgötvun Dior á gamalli kjólahönnun, voru eflaust margir Frakkar sem lærðu nýtt nafn á listamanni sem hafði fram að því legið í skugganum og farið varhluta af verðskuldaðri athygli, Sonia Delaunay. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Ólafsson - Louisiana
Upphafsreitur sýningarinnar um Soniu Delaunay í Louisiana-safninu.

Listakonan og heimsborgarinn frá Ódessu

Um liðna helgi vildi svo til að Víðsjá var stödd í Louisiana-nýlistasafninu skammt frá Kaupmannahöfn. Á þessu stóra og mikla safni, sem eflaust margt íslenskt listaáhugafólk þekkir mæta vel, kennir ýmissa grasa og margar mjög stórar sýningar er þar settar upp. Þar er nú umfangsmikil yfirlitssýning um ævi og störf Soniu Delaunay, sem átti hreint magnaðan feril á sviði myndlistar og hönnunar.

Sarah Elievna Stern fæddist árið 1885 í hafnarborginni Ódessu í suðurhluta Úkraínu, sem þá var hluti af Rússneska keisaradæminu. Foreldrar hennar voru gyðingar og ung að aldri var hún til Sankti Pétursborgar í fóstur til móðurbróður síns, Henris Terk. Eftir nokkrar deilur við móður Söruh, var ákveðið að móðurbróðir hennar ættleiddi hana og hún fékk nafnið Sonia og eftirnafnið Terk. Hjá Terk-fjölskyldunni hafði hún það reglulega gott og naut mikilla forréttinda en Henri Terk var afar farsæll og efnaður lögfræðingur og fjölskyldan ferðaðist víða um Evrópu og dvaldi heilu sumrin í Finnlandi. Á þessum ferðalögum kynntist Sonia listaheiminum, heimsótti söfn og sökkti sér í allar bækur sem hún komst í tæri við um list, bæði gamla og nýja. Hún stundaði líka mikið tungumálanám, lærði ensku, frönsku og þýsku og 18 ára var hún send í listnám í listaakademíuna í Karlsruhe í Þýskalandi og lærði þar til 1905. Þaðan var ferðinni síðan heitið í framhaldsnám til Parísar. 

Í París skráði Sonia sig í nám við Académie de la Palette í Montparnasse. Hún var reyndar dálítið fiðrildi sem námsmaður, hún hafði mun meiri áhuga á að flögra á milli listasafna og gallería Parísar en að sitja á námsbekk. Hún vildi frekar kynna sér lífið í borginni, þennan suðupott framúrstefnu í listum. Í blábyrjun 20. aldar, var Sonia undir miklum áhrifum síð-impressíonista eins og Van Gogh, Gaugin og Henri Rousseau.

Fyrsta hjónabandið var skiptidíll

Árið 1908 giftist hún þýska galleríeigandanum Wilhelm Uhde en hjónaband þeirra var samt ekki sprottið af ást, í raun bara skiptidíll, Sonia fékk peninga frá Udhe og í gegnum hann tengsl við listasenuna í París og í staðinn gat hann auðveldlega falið fyrir fjölskyldu og vinum þá staðreynd að hann var samkynhneigður. En ári síðar kynntist Sonia frönskum myndlistamanni, Robert Delaunay, og þau urðu samstundis ástfanginn. Sonia skildi við Udhe og gekk í það heilaga með Robert árið 1910, fékk þar með nafnið Delaunay, sem var önnur nafnabreyting hennar. Hún sagði um eiginmann sinn: Í Robert fann ég skáld, skáld sem skrifaði ekki með orðum heldur með litum.  

Eins og fyrr segir störfuðu hjónin náið saman, en lífið var ekki alltaf dans á rósum. Þegar heimsstyrjöld braust út árið 1914 flúðu þau Frakkland suður og dvöldu á Spáni  og í Portúgal þar sem þau kynnast flamenco og verða fyrir miklum áhrifum. Eftir október byltinguna í rússlandi 1917 eru allar eignir Terk fjölskyldunnar gerðar upptækar sem klippir á tekjur þaðan til Soniu og Roberts. Þá bregðast þau við og stofna tísku og hönnunarhúsið Casa Sonia til þess að eiga í sig og á og Sonia fer einnig að vinna meira við búninga- og innanhússhönnun. Þau flýja svo aftur París í seinni heimsstyrjöldinni, til suður Frakklands og í október 1941 deyr Robert Delaunay úr krabbameini. Sonia heldur ótrauð áfram og flytur aftur í borg ljósanna þegar Frakkland er frelsað og starfar þar til æviloka árið 1979. 

Leitaði að taktinn í nútímanum

En aftur að list Soniu. Fyrsta listaverkið hennar þar sem hún færði sig frá hefðbundnari myndbyggingu og natúralisma og yfir í heim hins óhlutbundna má segja að hafi verið vögguteppi sem hún gerði fyrir son sinn, Charles, árið 1911. Þar með hófst abstrakt ferðalag, sem óx samhliða því að kúbisminn var að ryðja sér til rúms í listagalleríum Parísarborgar. Þau hjónin, Robert og Sonia, unnu líka saman hörðum höndum að því að finna taktinn á nýrri öld og finna listræna rödd í samræmi við hann. 

Það er svo frægt þegar Sonia mætti á dansklúbbinn Bal Bullier kvöld eitt í París árið 1913, klædd í einhvers skonar samskotskjól, sem líktist litríku listaverki úr smiðju kúbismans, að eftir því tekið á sviði framúrstefnulistamanna þess tíma. Eins og listarverk sem lekið hefði af striganum og yfir á kjólinn, inn í hversdagsleikann og út á göturnar. Eins og hún sjálf orðaði það: „Ef málverkið hefur stigið inn í hversdaginn er það vegna þess að kona klæddist því.“ Þetta varð aðalsmerki Soniu, að hugsa sína módernísku list á mun breiðari menningarlegum grunni en í gegnum einn ákveðinn miðil. Sonia var frumkvöðull á þessu sviði á fyrstu áratugum síðustu aldar, flakkaði milli listar og handverks og nýtti fjölmarga miðla við myndlist sína og hönnun. Skarpir litir og form úr rúmfræðinni spruttu upp svo sem í textílvinnu, fatahönnun, auglýsingum og bókakápum. Litarannsóknir hennar voru líka afar athyglisverðar, hún kannaði kúbísk form með meiri áherslu á litina, og skapaði hugtakið simultané innblásið af þeirri kenningu að litir hafi áhrif hver á annan og breyti því sem kalla mætti karakter þegar þeim er stillt upp við hlið við hlið á skýrum flötum og upplifaðir á sama tíma og þaðan er nafn kenningarinnar komið. Soniu var líka umhugað um takt í listinni, taktinn í samtímanum og jafnvel lífinu sjálfu. Mörg verka hennar innihalda þetta orð, taktur. Að fylgja eftir einhverju ævarandi, einhverju tímalausu tilvistarástandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Ólafsson - Louisiana
Dæmi um kjóla- og mynsturhönnun sem til sýnis er.

Sýningin um Soniu Delaunay á listasafni Louisiana var í öllu falli afar áhrifamikil, vakti spurningar og kveikti áhuga á að vita meira um þessa merku konu frá Ódessu. Þótt allt sé undir er áherslan greinilega á textílhönnun hennar og 30 ára samstarf Soniu við hina virtu hollensku verslun Metz & Co í Amsterdam. Til sýnis eru hátt í 200 mynstur og snið – allt frá skyssum og teikningum yfir í fullunnið efni í bland við öll málverkin og annars konar verk. Til að mynda búningahönnun sem hún gerði fyrir dada-listamanninn fræga Tristan Tzara en þau urðu miklir vinir í gegnum listsköpun sína. Áhrifamest er þó kjólahönnun Soniu á 3. og 4. áratugnum. Þar var þröngum lífstykkjum var hent út á hafsauga og í staðinn komu kjólar með víðara sniði, hentugri fyrir konur módernismans, konur með styttra hár, sem reyktu sígarettur og keyrðu bíla. Konur sem ætluðu sér út fyrir boxið rétt eins og Sonia Delaunay. List hennar virðist eiga í samtali við nútímann hverju sinni, algjörlega flæðandi list sem, rétt eins og í franska sjónvarpinu árið 1968, ætti að fá verðskuldaða enduruppgötvun afar reglulega.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Louisiana
Búningahönnun Soniu Delaunay fyrir kvikmyndina Le p'tit Parigot frá 1926.