Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna skjálftahrinu

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Almannavarnir funduðu vegna stöðunnar í kvöld. Jarðskjálftahrina hófst við Eldvörp á Reykjanesskaga í morgun. Sex skjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst, en í heild eru þeir orðnir 580 talsins á svæðinu það sem af er degi. Sá stærsti, 4,3, varð um klukkan tuttugu mínútur í sex síðdegis og fannst meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.

Í tilkynningu frá Almannavörnum segir:

„Aukin jarðskjálftavirkni hefur verið síðustu vikurnar og hafa skjálftar yfir 4 mælst um helgina“.

„Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni.  Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar“ segir í tilkynningu frá Almannavörnum.

Hverju breytir óvissustig?

Óvissustig þýðir í raun að að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir óvissustigi aðalleg lýst yfir til upplýsinga fyrir almenning sem og viðbragðsaðila. „En eins og vísindamenn hafa sagt að þá er nær ómögulegt að spá um eldgos í virku eldgosakerfi. Það gæti orðið á morgun eða eftir áratugi“.

Óvissustigi er hluti af skipulagi Almannavarna og meðal annars notað til þess að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf milli viðbragðsðila. Eftir að óvissustig er lýst yfir fara stofnanir og viðbragsaðilar yfir áætlanir og viðbúnað.

Óvissustig síðast í gildi í janúar

Óvissustigi var aflétt á Reykjanesskaga 8. janúar síðastliðinn, eða fyrir rúmum fjórum mánuðum síðan. Það óvissustig var einnig í gildi vegna jarðskjálftahrinu, sem hófst 21. desember 2021.