Tékkneski gítarleikarinn með íslenskt tattú

Mynd: RÚV / RÚV

Tékkneski gítarleikarinn með íslenskt tattú

14.05.2022 - 12:17

Höfundar

„Ég er virkilega hrifinn af Íslandi,“ segir, Casper Hatlestad, gítarleikari tékkneska framlagsins í Eurovision. Sjálfur er hann norskur, á íslenskan stjúpföður og dreymir um að gerast jöklaleiðsögumaður á Íslandi.

Mikið líf og fjör var á túrkísdreglinum síðasta sunnudag en þar ræddi Björg Magnúsdóttir meðal annars við meðlimi tékknesku sveitarinnar, We are Domi, sem keppir fyrir hönd Tékklands í Eurovision í kvöld. Þar kom á daginn að gítarleikarinn, Casper Hatlestad, er mikill aðdáandi Íslands.  

Casper er norskur og á íslenskan stjúpföður, Sigurjón Kristjánsson. Hann segist auðvitað hafa komið til Íslands og meira að segja spilað á Ameríska barnum. „Ég er líka með íslenskt tattú,“ segir hann og sýnir fornrúnirnar sem hann hefur húðflúraðar á síðuna. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gítarleikari tékkneska lagsins er með íslenskar rúnir húðflúraðar á síðuna.

„Ég er virkilega hrifinn af Íslandi, það er mjög fallegt með mikilli nýsköpun og sköpunargleði,“ segir hann og bætir við að hann dýrki Sigur Rós og Ólaf Arnalds. Einnig dreymir hann um að flytja til Íslands á einhverjum tímapunkti og gerast jöklaleiðsögumaður. 

„Komið nú strákar! Þetta reddast!“ hrópa þau svo öll í kór á íslensku. 

Rætt var við We are Domi í Á tali í Tórínó. Þáttinn má sjá í heild sinni í spilara RÚV. 

Lokakeppni Eurovision verður á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 19:00.  

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Skemmtilegasta vinnuferð sem hægt er að fara í

Menningarefni

Handviss um að þær verði ofar í kvöld en við höldum

Tónlist

„Maður var bara öskrandi í græna herberginu“