Mikið líf og fjör var á túrkísdreglinum síðasta sunnudag en þar ræddi Björg Magnúsdóttir meðal annars við meðlimi tékknesku sveitarinnar, We are Domi, sem keppir fyrir hönd Tékklands í Eurovision í kvöld. Þar kom á daginn að gítarleikarinn, Casper Hatlestad, er mikill aðdáandi Íslands.
Casper er norskur og á íslenskan stjúpföður, Sigurjón Kristjánsson. Hann segist auðvitað hafa komið til Íslands og meira að segja spilað á Ameríska barnum. „Ég er líka með íslenskt tattú,“ segir hann og sýnir fornrúnirnar sem hann hefur húðflúraðar á síðuna.