Undirbúningur fyrir Eurovision hefur staðið yfir í Tórínó í tvær vikur núna og hafa íslenskir fjölmiðlar verið duglegir að fylgjast með og fjalla um hvað allt það sem gerist á bakvið tjöldin. Björg Magnúsdóttir ræddi við það frétta- og blaðafólk sem staðsett er á Ítalíu í þættinum Á tali í Tórínó.
Dagarnir hafa verið langir fyrir fjölmiðlafólkið en öll eru þau sammála um að álagið sé vel þess virði. „Það er bara geggjað að vera hérna og fá að upplifa Eurovision í real life,“ segir Sonja Sif Þórólfsdóttir sem er úti á vegum mbl.is. Hingað til hefur hún ekki verið mikill aðdáandi keppninnar en undanfarnir dagar hafa sannfært hana. „Ég er að verða Eurovision-nöttari.“
„Þetta eru langir vinnudagar en örugglega þeir skemmtilegustu sem við höfum upplifað,“ segir Sylvía Rut Sigfúsdóttir, á vegum Vísis.is og Stöð 2. Dóra Júlía Agnarsdóttir sem er með henni samsinnir þessu af heilum hug. „Þetta er búið að vera mikið stuð og ótrúlega mikið fjör,“ segir Dóra Júlía og er glöð að fá að vera hluti af þessari Eurovision-heild. „Það eru allir svo glaðir og skemmtilegir og við erum búnar að kynnast svo mikið af fólki. Það er vel þess virði að taka langa og skemmtilega vinnudaga.“
Nína Richter, á vegum Fréttablaðsins og Torgs, segir þetta vera skemmtilegustu vinnuferð sem hægt er að fara í þrátt fyrir að vera þétt pökkuð. „Við tókum eftir því í gær að við vorum ekki búnar að borða nema tvær máltíðir síðan við lentum á laugardaginn,“ segir hún og Ingunn Lára Kristjánsdóttir, sem er með henni, bætir við að fyrstu tvo sólarhringana hafi hún einungis sofið í einn klukkutíma. „Maður verður svolítið ör.“
Mikil samstaða ríkir í Eurovision-þorpinu og góðan anda er alls staðar að finna. „Í ljósi stríðsins í Úkraínu erum við að leita að meiri sameiningarþætti en áður,“ segir Nína. „Og maður finnur þennan þráð í öllu. Í vinnu blaðamanna og keppenda og almennt.“