
Öryggisráðið fordæmir dráp Abu Akleh og vill rannsókn
Abu Akleh var þaulreynd fréttakona Al Jazeera sem var að fylgjast með aðgerðum Ísraelshers á Vesturbakkanum í Palestínu þegar hún var skotin í höfuðið.
Í yfirlýsingu Öryggisráðsins er dráp Abu Akleh fordæmt og kallað eftir „tafarlausri, ítarlegri, gagnsærri og hlutlausri rannsókn á drápi hennar,“ samkvæmt frétt AFP. Óvenjulegt er að slík samstaða náist í Öryggisráðinu um nokkurt mál sem tengist Ísrael og Palestínu.
Lögregla gagnrýnd fyrir harkalegar aðfarir
Útför Abu Akleh fór fram á föstudag og hafði fjöldi syrgjenda safnast saman við St. Jósefs-sjúkrahúsið í Austur-Jerúsalem. Skömmu eftir að lík hennar var borið þaðan út réðst ísraelska lögreglan af mikilli hörku gegn syrgjendum, sem margir héldu palestínska fánanum á lofti, en það er bannað samkvæmt ísraelskum lögum.
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er „afar sleginn“ vegna ofbeldisins sem braust út, átaka ísraelsku lögreglunnar og Palestínumanna „og framgöngu sumra lögreglumanna á vettvangi,“ sagði Farhan Haq, talsmaður Guterres.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkjastjórn hafa „miklar áhyggjur“ af afskiptum lögreglu af útför Abu Akleh. „Allar fjölskyldur eiga rétt á að leggja ástvini sína til hinstu hvílu með virðingu og afskiptalaust,“ sagði Blinken í yfirlýsingu sinni.