Nærri 90 prósenta kjörsókn í Mjóafirði

Mynd með færslu
 Mynd: Yfirkjörstjórn Fjarðabyggðar
Nærri níu að hverjum tíu Mjófirðingum með kosningarétt mættu á kjörstað þar í dag. Kjörgögnin frá Mjóafirði eru flutt landleiðina til Eskifjarðar.

Kjördeildinni í Mjóafirði var lokað klukkan tvö og þar var 88,2 prósenta kjörsókn. Í þá tölu vantar utankjörfundaratkvæði, en þau geta hækkað töluna um kjörsókn.

Kjörgögnum úr Mjóafirði er ekið sem leið liggur yfir Mjóafjarðarheiði og á talningarstað á Eskifirði, að því er segir á Facebooksíðu yfirkjörstjórnar í Fjarðabyggð.

Mjóifjörður tilheyrir Fjarðabyggð og 990 höfðu greitt atkvæði í sveitarfélaginu klukkan þrjú, sem gerir 26,9 prósenta kjörsókn. Í sveitarstjórnarkosningunum 2018 höfðu 25,9 prósent greitt atkvæði á sama tíma.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV