Mynd: AP

Myrti tíu manns í Buffalo í New York-ríki
14.05.2022 - 22:56
Kornungur, hvítur byssumaður myrti tíu manns í matvöruverslun í borginni Buffalo í New York ríki í Bandaríkjunum síðdegis í dag og særði þrjú, þar af tvö lífshættulega. Alríkislögreglan FBI rannsakar málið sem hatursglæp og glæp sem sprottinn er af kynþáttahyggju.
Í frétt AFP segir að þrjú lík hafi fundist á bílastæði verslunarinnar og sjö inni í versluninni. Staðarfjölmiðillinn The Buffalo News hefur eftir lögreglu að morðinginn hafi verið í skotheldum hlífðarklæðnaði og með hermannahjálm á höfði.
Morðinginn hefur verið handtekinn og er sagður átján ára hvítur karlmaður. Fórnarlömb hans voru flest dökk á hörund.
„Við rannsökum atvikið sem hvort tveggja hatursglæp og glæp sem sprottinn er af ofbeldisfullri öfga-kynþáttahyggju,“ sagði Stephen Belongia, sem fer fyrir rannsókn Alríkislögreglunnar á árásinni.
Fréttin var uppfærð kl. 23.30 til samræmis við nýjar upplýsingar um morðingjann og fórnarlömb hans.