Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Mér líður eins og ég sé komin í einhvern rússíbana“

14.05.2022 - 18:51
Mynd: Bragi Valgeirsson / Fréttir
Í kvöld ræðst hvaða þjóð tryggir sér sigur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Foreldrar íslensku Eurovision-faranna eru stressaðir en glaðir og hafa tröllatrú á sínu fólki. 

„Þröngt mega sáttir sitja“

Systur, og reyndar einn bróðir líka, eru átjándu á svið í kvöld. Systkinin eiga ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana því foreldrar þeirra eru Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson. Fjölskyldan ætlar að horfa á keppnina heima. 

„Þröngt mega sáttir sitja, það er okkar mottó,“ segir Eyþór. 

„Ég er svo fegin að við erum hér. Í gær vorum við næstum því búin að fara út en svo ákváðum við að vera heima og við finnum það í hjartanu að það er rétt því að þá eru þau rólegri og við rólegri,“ segir Ellen. 

Og það er þema í þessu Eurovision-partíi. Allir verða klæddir í græna lukkulitinn, þar á meðal einungis tveggja vikna sonur Eyþórs Inga sem kúrir vært í fangi móður sinnar og kippir sér lítið upp við spennuna á heimilinu. Ellen segir að saga sé á bak við græna þemað. Fyrir Söngvakeppnina dreymdi hana Lovísu, höfund lagsins, í grænum jakka. 

„Svo kem ég í höllina og þá er hún í grænum jakka! Og þá segi ég við hana: Oh my god, Lovísa! Þið eruð að fara að vinna!  Svo hún hefur bara verið í græna jakkanum síðan, og við í grænu, og svo gáfum við þeim græna gimsteina.“

Hafa sigrað í þeirra augum

En er ekkert stress? „Jú, auðvitað er stress“, segir Eyþór.

„Ég hélt að ég væri ekkert stressuð en ég finn það núna að mér líður eins og ég sé komin í einhvern rússíbana, en góðan sko, “ bætir Ellen við. 

„Þetta er búið að vera svo fallegt, alveg frá byrjun þegar Lay Low hringir í þær og segir: Stelpur eruð þið til í að gera lag með mér?  Þær hugsa málið og segja: Auðvitað með Lay Low, já! Þá segir hún: Ég held að við séum samt ekkert að fara að vinna sko, við verðum bara sjálfum okkur samkvæmar,“ rifjar Ellen upp. 

En það er aldrei að vita. Rétt áður en við kvöddumst bárust Eyþóri fregnir utan úr heimi. 

„Hérna er ég að fá skilaboð frá vini mínum í Noregi sem segir: NRKs Eurovision's Expert Team er að spá börnunum ykkar í fyrsta sæti í fyrsta sinn.“

-Jahá, hvernig líst ykkur á þetta?

„Ja, það er náttúrulega ekki hægt að gera betur en það,“ segir Eyþór.

„Ég er bara orðlaus,“ segir Ellen.  „Ja, af hverju ekki?“