Kjörsókn víða betri en í síðustu kosningum

14.05.2022 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Kjörsókn á fyrstu klukkutímunum eftir að kjörstaðir opnuðu í morgun hefur víða verið betri en í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Kjörsókn í Reykjavík klukkan 11 í morgun var 5,7%, heilu prósentustigi hærri en árið 2018. Þar höfðu 5.730 manns mætt á kjörstað í höfuðborginni.

Á höfuðborgarsvæðinu jókst kjörsókn einnig í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og á Seltjarnarnesi, en í Mosfellsbæ fór kjörstjórn hægar af stað heldur en í síðustu sveitarstjórnarkosningar.

5,4% kjörgengra íbúa á Akureyri höfðu kosið klukkan 11:00, en þar fer kjörsóknin hægt af stað. Þá höfðu 7,3% kosið á Akranesi á sama tíma.

Í Árborg var kjörsókn 11% klukkan 11 í morgun. 625 höfðu kosið í sveitarfélaginu. Að sögn formanns yfirkjörstjórnar er kjörsóknin svipuð og í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Á Ísafirði höfðu 127 kosið klukkan 11, eða 4,5% kjörgengra íbúa. Þar er kjörsókn einnig á pari miðað við kosningarnar 2018.

Í Skagafirði, þar sem kosið er í fyrsta sinn í sameinuðu sveitarfélagi, var kjörsóknin 6,2%, sem er heldur minna en í síðustu kosningum. 

8% höfðu kosið í Fjallabyggð klukkan 11 og 5,1% í Fjarðabyggð.

Þá höfðu 11,8% kosið í Norðurþingi klukkan 12. 

 

Pétur Magnússon