Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hitinn um og yfir 50 stig í Pakistan og Indlandi

14.05.2022 - 04:29
epa09944667 Two boys cool off in a canal as a heatwave continues in Dera Ismail Khan, Pakistan, 13 May 2022. The Pakistan Meteorological Department (PMD) said that a severe heatwave that has been affecting central will affect the entire province, including Karachi, for nearly a week starting 11 May, with maximum temperatures expected to exceed 40 degrees Celsius in the provincial capital.  EPA-EFE/SAOOD REHMAN
Tveir drengir kæla sig við árbakka í Dera Ismail Khan í Pakistan Mynd: EPA-EFE - EPA
Feiknarmikil og langvinn hitabylgja heldur Indlandsskaganum enn í heljargreipum. Hiti fór yfir 50 stig á nokkrum stöðum í Pakistan á föstudag og stjórnvöld vara við vatnsskorti og ógn við líf og heilsu fólks. Hitabylgja hefur geisað víða á Indlandi og Pakistan síðan snemma í apríl með litlum hléum. Sérfræðingar Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, sem heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar, segja hitabylgjuna í takt við hlýnun Jarðar og þau fyriséðu áhrif sem hún hefur, segir í frétt AFP.

Hitabylgja í stað vors

Hiti fór í 50 stig í pakistönsku borginni Jakóbabad á föstudag, samkvæmt pakistönsku veðurstofunni, sem spáir svipuðum hita í dag og á morgun. Yfirveðurfræðingur pakistönsku veðurstofunnar, Saheer Ahmad Babar, segir vorið ekki hafa látið sjá sig í Pakistan þetta árið heldur hafi sjóðheitt sumar tekið beint við af vetrinum. Hann segir hitabylgjur hafa færst stöðugt í aukana í landinu allt frá 2015, sérstaklega í suður- og suðausturhluta landsins.

Hitinn þjakar hundruð milljóna

Í Rajastanríki á Indlandi fór hitinn í rúmar 48 gráður á fimmtudag og spáð er 46 stiga hita í Nýju Dehli frá sunnudegi. Flestir skólar landsins hafa flýtt sumarleyfum vegna hitanna, og hefjast þau strax á mánudag.  

Áframhaldandi hitabylgju er spáð í mörgum ríkjum Indlands næstu daga, sem mun bitna á hundruðum milljóna Indverja. Vonir eru þó bundnar við að eitthvað lát verði á hitunum þegar monsúnvindar byrja að blása af Andamanhafi og Bengalflóa í byrjun vikunnar.