
Hitinn um og yfir 50 stig í Pakistan og Indlandi
Hitabylgja í stað vors
Hiti fór í 50 stig í pakistönsku borginni Jakóbabad á föstudag, samkvæmt pakistönsku veðurstofunni, sem spáir svipuðum hita í dag og á morgun. Yfirveðurfræðingur pakistönsku veðurstofunnar, Saheer Ahmad Babar, segir vorið ekki hafa látið sjá sig í Pakistan þetta árið heldur hafi sjóðheitt sumar tekið beint við af vetrinum. Hann segir hitabylgjur hafa færst stöðugt í aukana í landinu allt frá 2015, sérstaklega í suður- og suðausturhluta landsins.
Hitinn þjakar hundruð milljóna
Í Rajastanríki á Indlandi fór hitinn í rúmar 48 gráður á fimmtudag og spáð er 46 stiga hita í Nýju Dehli frá sunnudegi. Flestir skólar landsins hafa flýtt sumarleyfum vegna hitanna, og hefjast þau strax á mánudag.
Áframhaldandi hitabylgju er spáð í mörgum ríkjum Indlands næstu daga, sem mun bitna á hundruðum milljóna Indverja. Vonir eru þó bundnar við að eitthvað lát verði á hitunum þegar monsúnvindar byrja að blása af Andamanhafi og Bengalflóa í byrjun vikunnar.