Framsókn í aðalhlutverki í Hafnarfirði

14.05.2022 - 23:45
Mynd: RUV / RUV
Framsóknarflokkurinn er í lykilhlutverki við myndun meirihluta í Hafnarfirði. Núverandi meirihluti heldur þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn missi einn bæjarfulltrúa miðað við fyrstu tölur. Samfylkingin bætir verulega við sig undir forystu Guðmundar Árna Stefánssonar sem snýr aftur í bæjarstjórn eftir tæplega þriggja áratuga fjarveru. Hann ætlar að vera í símanum í alla nótt en vill ekki gefa upp við hvern hann ætlar að tala fyrst.

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins, sagði of snemmt að segja til um hvort núverandi meirhlutasamstarfi yrði haldið áfram. Uppsveifla Framsóknarflokksins á landsvísu héldi áfram.

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar sem heldur sínum bæjarfulltrúa, sagðist vera ágætlega ánægður með fyrstu tölur. Flokkurinn væri að bæta við sig en hann hefði trú á því að atkvæðunum ætti eftir að fjölga.

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri, minnti á að flokkurinn hefði bætt við sig fimmta bæjarfulltrúanum á síðustu metrunum fyrir fjórum árum. Hún hafði trú á því að sama yrði uppi á teninginum í nótt.

Sigurður P. Sigmundsson, oddviti Bæjarlistans, var vonsvikinn með fyrstu tölur og sagði kosningabaráttuna hafa snúist upp í tveggja turna tal sem fjölmiðlar hefðu kynnt undir.

Sigurður Þ. Ragnarsson, oddviti Miðflokksins, var einnig nokkuð gagnrýnin á fjölmiðla og sagði þá hafa fjallað meira um Eurovision en lýðræðið. Miðað við fyrstu tölur væri komið að kaflaskilum hjá honum en hann væri hundsvekktur með þessar fyrstu tölur.

Haraldur L. Ingason, oddviti Pírata, benti á flokknum vantaði sama fjölda atkvæða nú og fyrir fjórum árum til að ná manni inn. Hann væri samt alveg rólegur yfir þessu. 

Davíð Arnar Stefánsson, oddviti VG, fór ekkert leynt með vonbrigði sínum en flokkurinn nær ekki manni inn, miðað við fyrstu tölur. Hann sagði flokkinn þó kominn til að vera og hann myndi mæta tvíelfdur til leiks í næstu kosningum ef þetta tækist ekki núna.

Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar, gat ekki mætt í sjónvarpsviðtal. Fyrstu viðbrögð hans voru ekkert nema ánægja því Samfylkingin væri að vinna stóran sigur og jafnaðarmenn að mæta til leiks á ný. Flokkurinn  væri reiðubúinn að stjórna næstu fjögur ár.  „Þetta er ákall um að bæjarbúar vilja sjá félagshyggju og það er enginn að kalla eftir aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Við erum klár í bátana og nú hefjast samtöl við flokka.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV