Fimm atkvæði skildu að í Vopnafjarðarhreppi

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Framsóknarflokkurinn vann meirihluta í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps í dag. Mjótt var á munum og skildu aðeins fimm atkvæði á milli Framsóknar og Vopnafjarðarlistans þegar upp var staðið. Framsókn fékk 50,7 prósent atkvæða en Vopnafjarðarlistinn 49,3 prósent.

Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarmanna, segist hafa verið viðbúinn því að litlu myndi muna á framboðunum. „Við áttum alltaf von á því að þetta yrði spennandi kosninga hjá okkur,“ sagði Axel Örn í kvöld. Hann segir Framsóknarmenn þó hafa verið sigurvissa. 

„Núna tekur bara samtalið við restina af sveitarstjórninni um að byggja upp gott samstarf hjá okkur,“ segir Axel. Hann segir að þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi náð meirihluta sé ekki sjálfgefið að hann taki öll völd í sínar hendur og stjórni eftir eigin höfði. „Þegar það er svona mjótt á munum þá kallar þetta á svo mikið samstarf um allt saman. Ef við ætlum að vera meirihlutinn og þrýsta einhverju í gegn erum við bara að fara að kljúfa samfélagið og það gengur engan veginn.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV