Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bæjarlisti stærstur og Flokkur fólksins fær gott start

14.05.2022 - 23:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Bæjarlistinn fær flest atkvæði á Akureyri gangi fyrstu tölur eftir. Hann er með 20,2 prósent atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa þegar 2.000 atkvæði hafa verið talin. Sjálfstæðisflokkurinn sem var stærstur síðast fellur nú niður í þriðja sæti með 17,6 prósent en Framsóknarflokkurinn tekur fram úr honum með 18,2 prósent. Tveir síðarnefndu flokkarnir eru með tvo fulltrúa hvor. Flokkur fólksins kemur sterkur inn og fær 12,6 prósent og einn bæjarfulltrúa í fyrstu atlögu að bæjarstjórn Akureyrar.

Samfylkingin tapar og fær 10,3 prósent og einn fulltrúa. 8,8 prósent Miðflokks og 6,6 prósent Vinstri-grænna skila hvorum flokki einum fulltrúa í bæjarstjórn. Kattaframboðið með 3,7 prósent og Píratar með 2,1 prósent komast ekki inn í bæjarstjórn. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar, sagði niðurstöðu flokksins virkilega ánægjulega en Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagðist bíða seinni talna í nótt og vonast til að fylgi flokksins verði meira en þetta. Gunnar Líndal Sigurðsson, oddviti Bæjarlistans, sagðist vera mjög þakklátur og auðmjúkur. „Við erum bjartsýn.“

Aðrir lýstu minni ánægju. „Okkar kettir koma seint inn,“ sagði Ásgeir Ólafsson Lie, annar maður á lista Kattaframboðsins. „Ég er grjóthörð á því að ég er Ástþór Magnússon norðursins,“ sagði Hrafndís Bára Einarsdóttir, oddviti Pírata, og sagðist komast að á endanum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV