
Þyrlustjóri sendur í leyfi vegna lögreglurannsóknar
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur þyrluflugstjórinn verið sendur í ótímabundið leyfi vegna rannsóknar lögreglu á kæru sem varðar kynferðisbrot utan vinnustaðar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var maðurinn handtekinn, gerð var húsleit á heimili hans og tekin skýrsla. Var honum sleppt að lokinni skýrslutöku.
Forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar var ekki kunnugt um mál mannsins fyrr en fréttastofa RÚV spurðist fyrir um það.
Ákveðið var að senda flugstjórann í leyfi frá störfum um leið og stjórnendum Landhelgisgæslunnar barst vitneskja um málið, segir í svari upplýsingafulltrúa.
Þar segir einnig að ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að ekki verði röskun á viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar vegna þessa og að aðrir þyrluflugstjórar stofnunarinnar hafi boðist til að fylla skarðið sem myndaðist.