
Rússnesku skipi með stolið úkraínskt korn vísað frá
Fram kemur að skipið hafi lagst við stjóra út af Krímskaga í apríllok. Gervihnattamyndir og ljósmyndir sýni að það hafi lagst að bryggju í höfninni í Sevastopol daginn eftir. Samkvæmt CNN sigldi Matros Pozynich þaðan til Alexandríu í Egyptalandi með um 30.000 tonn af úkraínsku korni innanborðs.
Úkraínsk yfirvöld settu sig í samband við yfirvöld í Egyptalandi og sögðu hvers kyns var, sem varð til þess að skipinu var snúið við. Þetta endurtók sig þegar skipinu var siglt til Beirút í Líbanon.
Sigldi að lokum til Sýrlands
Hinn 5. maí náðust svo myndir af því við bryggju í sýrlensku hafnarborginni Latakía. Sýrlendingar eiga í nánu samstarfi við Rússa, og í frétt CNN er haft eftir sérfræðingum að margt bendi til þess að þar hafi korninu verið umskipað, til að hylja slóð þess og uppruna. Úkraínsk yfirvöld áætla að minnst 400.000 tonnum af korni hafi verið stolið og flutt úr landi frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu.