Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öryggi Svía betur tryggt í NATÓ en utan

13.05.2022 - 12:30
epa09706745 (L-R) Finnish Foreign Minister Pekka Haavisto, NATO Secretary General Jens Stoltenberg, and Swedish Foreign Minister Ann Linde during a joint press conference at the end of a meeting at the NATO headquarters in Brussels, Belgium, 24 January 2022. The Finnish and Swedish foreign ministers are at NATO for talks on cooperations in the Baltic Sea.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
Utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar á fréttamannafundi með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATÓ. Mynd: EPA-EFE
Í skýrslu öryggismálanefndar sænska þingsins, sem kynnt var í dag, segir að öryggi Svíþjóðar aukist gangi það í Atlantshafsbandalagið. Þátttaka landsins í varnarsamstarfinu dragi úr líkum á því að hernaðarátök brjótist út í Norður-Evrópu. Skýrsluhöfundar ganga ekki svo langt að mæla með því að Svíar gangi í NATÓ.

Ann Linde utanríkisráðherra kynnti öryggisgreiningu nefndarinnar á fundi með fréttamönnum í Stokkhólmi í morgun. Hún sagði að niðurstaðan hefði verið sú að öryggi Svíþjóðar væri betur borgið innan NATO en utan þar sem þá nyti landið sameiginlegrar ábyrgðar aðildarlandanna í samræmi við fimmtu grein stofnsáttmála sambandsins. Í henni er því lýst yfir að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll.

Ann Linde sagði að nefndin hefði hvorki mælt með því né á móti að Svíar sæki um aðild að bandalaginu. Hún sagðist aðspurð ekki vilja gefa upp sína skoðun, en hún hefði gert upp hug sinn.

Sænski Jafnaðarmannaflokkurinn tekur ákvörðun um helgina um hvort hann styðji umsóknina. Sauli Niinistö, forseti Finnlands, er væntanlegur í opinbera heimsókn til Svíþjóðar eftir helgi. Hugsanlegt er talið að leiðtogar beggja þjóða noti þá tækifærið til að tilkynna um umsókn.

Sænska dagblaðið Expressen hafði reyndar í gær eftir heimildarmönnum sínum að Svíar ætluðu að sækja um aðild að NATÓ á mánudag. Fullyrt er að umsóknin hafi legið tilbúin í utanríkisráðuneytinu vikum saman.

Haft var í gærkvöld eftir Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, á vef norska dagblaðsins VG að Íslendingar, Danir og Norðmenn ynnu að því að því að samþykkja sameiginlega umsóknir Svía og Finna um leið og þær lægju fyrir.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV