Ný líkamsrækt helsta hitamálið á Hornafirði

13.05.2022 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Helsta hitamálið á Hornafirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar er bygging nýrrar líkamsræktarstöðvar á staðnum. Bæjarbúi segir mikilvægt að lóðaframboð verði aukið til að bregðast við húsnæðisskorti.

Hornfirðingar geta valið á milli þriggja framboða í komandi sveitarstjórnarkosningum. Framsóknarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn eða Kex-listann.

„Ég held að það sé verið að ræða skort á íbúðarhúsnæði meðal annars og ekki síst. Og nauðsyn þess að fara í endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Vitaskuld er áherslumunur. Það er hvort íbúðabyggðin eigi að þróast í þessa áttina eða hina eða hvort eigi að færa tjaldstæðið og gera það að íbúðabyggð. Það er svo sannarlega ástæða til að reyna að spýta í lófana og hafa nægjanlegt lóðaframboð sem hefur skort á undanfarið,“ segir Ari Jónsson, framkvæmdastjóri Dýpkunarfélagsins Trölla, en hann er vel inni í málum í bænum.

Á kosningafundi sem haldinn á Hornafirði var eitt mál lang plássfrekast. Framsókn sem er í meirihluta vinnur að því að byggja við sundlaugina nýja líkamsræktarstöð og vill byggja nýtt íþróttahús síðar. Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar skoða að byggja strax nýtt íþróttahús og sleppa þessum millileik. Kex listinn vill að nýtt íþróttahús sé fyrsti kostur en hefur líka sagt að mögulega sé illa farið með fjármuni sveitarfélagsins að hætta við fyrirhugaða byggingu líkamsræktar án frekari skoðunar.

Á Hornafirði blasa við skriðjöklar úr Vatnajökli og fram undan er mikil uppbygging í kringum Vatnajökulsþjóðgarð. Höfuðstöðvar hans verða fluttar á Hornafjörð í haust og bæta þarf aðstöðu við Jökulsárlón, einn vinsælasta ferðamannastað landsins.

Ari Jónsson vonar að næsta bæjarstjórn tryggi að ríkið hefji framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili sem hefur verið talað um, að hans sögn, í 20 ár. „Það er ekki enn búið að taka fyrstu skóflustunguna en ég held að nú sé ekki lengur undan vikist og nú verði að klára málið á þessu kjörtímabili.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV