Meirihlutinn í borginni fallinn samkvæmt þjóðarpúlsi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jóhann Bjarni Kolbeinsso
Meirihlutinn sem myndar nú borgarstjórn í Reykjavík missir naumlega þá tólf borgarfulltrúa sem þarf til að mynda meirihlutastjórn, samtals ná þau inn ellefu fulltrúum. Samfylkingin mælist með sex borgarfulltrúa, Píratar þrjá, Viðreisn hefur aðeins einn og Vinstri græn ná inn einum fulltrúa.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups.

Mestar sviptingar á fylgi Framsóknarflokks

Mestar sviptingar eru á fylgi Framsóknar, sem bætir við sig fjórum borgarfulltrúum frá því í kosningunum 2018 þegar þeir höfðu engan. Samfylking tapar einum fulltrúa, Viðreisn missir einnig einn og Sjálfstæðisflokkur tapar tveimur. Miðflokkurinn missir þann eina borgarfulltrúa sem hann fékk í kosningunum 2018.

Munurinn á fylgi tveggja stærstu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, er innan skekkjumarka. Samfylking mælist með 24% fylgi og Sjálfstæðisflokkur með 21,5% og skekkjumörk beggja eru um 2,5%.

Píratar bæta við sig einum borgarfulltrúa. Vinstri græn, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands standa í stað og halda einum borgarfulltrúa hver.

Mynd með færslu
 Mynd: Gallup - Frettir

Miðflokkurinn, Ábyrg framtíð og Besta borgin ná ekki inn

Þrír flokkar ná ekki inn borgarfulltrúa miðað við þennan nýjasta þjóðarpúls. Það eru nýju framboðin Ábyrg framtíð ásamt Reykjavík, bestu borginni sem mælast ekki með nóg fylgi til þess að ná inn manni. Auk Miðflokksins, sem missir sinn eina fulltrúa.

Þetta eru niðurstöður nýjasta Þjóðarpúls Gallups, sem gerð var dagana 9.-13. maí. Heildarúrtaksstærð var 2.687 manns, 18 ára og eldri með lögheimili í Reykjavík. Þátttaka í könnuninni var 48,2%.

Tölurnar voru reiknaðar út frá þremur spurningum, þátttakendur voru fyrst spurðir: „Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem ekki höfðu ákveðið sig fengu þá spurninguna: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem ekki tóku afstöðu í þeirri spurningu fengu þá spurninguna: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“

13.05.2022 - 16:44