Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mál Arons Einars og Eggerts fellt niður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál gegn Aroni Einari Gunnarssyni, fyrrverandi fyrirliða íslenska landsliðsins í fótbolta, og Eggerti Gunnþóri Jónssyni, liðsmanni FH. Þeir voru báðir kærðir fyrir kynferðisbrot gegn konum og var vikið úr liðunum vegna þess.

DV greindi fyrst frá málinu. Lögmaður Arons Einars, Einar Oddur Sigurðsson, staðfesti fregnirnar einnig við fréttastofu.

Málið fullrannsakað

Einar Oddur segir að tilkynning um niðurfellingu málsins hafi borist í dag þar sem segir að málið sé fullrannsakað og ólíklegt teljist að það leiði til sakfellingar. Einar Oddur segir Aron Einar fagna niðurstöðunni. 

Í kærunni gegn Aroni og Eggerti var þeim gert að sök að hafa beitt konu ofbeldi í Kaupmannahöfn árið 2010. Aron var í kjölfarið ekki valinn í landsliðið og greindi landsliðsþjálfari frá að það væri vegna „utanaðkomandi ástæðna“. Aron hefur ekki spilað með liðinu síðan.

Eggerti Gunnþóri var vikið úr leikmanna- og þjálfarahópi knattspyrnudeildar FH í síðasta mánuði vegna málsins, en málið kom inn á borð héraðssaksóknara í lok mars. Rannsókn lögreglu lauk undir lok febrúar.