Leit að úkraínsku vændi og klámi jókst við innrás Rússa

Mynd: EPA-EFE / PAP
Leit að úkraínskum konum í kynferðislegum tilgangi jókst um 200-600% strax eftir innrás Rússa í Úkraínu. Sérfræðingur hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu segir mikinn fjölda karlmanna reyna að nýta sér neyð úkraínskra kvenna á flótta og til þess noti þeir helst netið.

Um sex milljónir hafa flúið frá Úkraínu eftir að her rússneskra stjórnvalda réðst inn í landið í lok febrúar. Mikill meirihluti þeirra eru konur og börn. Á meðan flestir vilja rétta fólki í neyð hjálparhönd sjá aðrir sér leik á borði og nýta sér neyð annarra. 

„Við komumst að því að leit á netinu að úkraínskum konum, úkraínsku klámi og úkraínskri fylgdarþjónustu jókst gríðarlega á fyrstu vikunum eftir að stríðið braust út og hefur haldist þar síðan. Og þegar ég segir gríðarlega, þá meina ég um 200-600%.“ segir Valiant Richie. 

Mynd með færslu
 Mynd: OSCE
Valiant Richie.

Richie fer fyrir deild innan Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem berst gegn mansali og kynferðisofbeldi í stríði. Í samvinnu við ýmis tæknifyrirtæki aflaði deildin þeirra upplýsinga að leit eftir úkraínskum konum í kynferðislegum tilgangi hefði rokið upp úr öllu valdi í ríkjum stofnunarinnar. 

Valiant segir að líkt og flestir aðrir hafi starfsfólk stofnunarinnar ekki reiknað með stríðsátökum í Evrópu á þessu ári eins og síðar varð raunin. Hann segir þau þó hafa geta brugðist skjótt við, og byggi þá á fyrri reynslu úr aðstæðum sem þessum. 

Flóttamannastraumurinn árin 2015 og 2016 og yfirreið kórónuveirufaraldusins sem hófst árið 2020 hafi hvort tveggja kennt þeim hjá öryggis- og samvinnustofnuninni sitt lítið að hverju um hvernig best sé að bregðast við fólki á flótta. Hvernig eigi að reyna að koma í veg fyrir að fólk á flótta verði enn berskjaldaðri en ella og aðgerðir gegn þeim sem vilja nýta sér neyð þeirra sem þurfa að flýja heimili sín. 
 
Og þeir eru víst fleiri en einn og fleiri en tveir. Richie segir að ýmiskonar tölfræði sem stofnunin hafi viðað að sér með aðstoð tæknifyrirtækja síðan stríð skall á í Úkraínu gefa umtalsverðar ástæður til að hafa áhyggjur af stöðu mála. Richie segir það verulegt áhyggjuefni að finna fyrir þessum gríðarmikla áhuga á konum í viðkvæmri stöðu í kynferðislegum tilgangi.  Í samvinnu við tæknifyrirtæki, eins og áður var nefnt, komust eftirlitsaðilar hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sömuleiðis að því að umræða jókst til muna á spjallsíðum þar sem vændi er selt um hvernig hægt væri að komast í samband við konur frá Úkraínu. 

  • Viðtalið við Richie má sjá í spilaranum hér að ofan. Nánar verður rætt við hann í fréttaskýringaþættinum Heimskviðum, sem er á dagskrá Rásar 1 eftir hádegisfréttir á morgun, laugardag. 
Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV